Samfylkingin er fylgismesti stjórnmálaflokkur landsins í dag samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Vísi. Samkvæmt frétt Vísis um könnunina mældist Samfylkingin með 20,1 prósenta fylgi. Hefur hún þar með næfurþunnt forskot á Sjálfstæðisflokkinn, sem mælist með 20 prósenta fylgi.

Ef þessar niðurstöður yrðu að veruleika væri Samfylkingin rúmlega að tvöfalda það fylgi sem hún hlaut í síðustu Alþingiskosningum árið 2021. Vert er þó að athuga að fylgi Samfylkingarinnar í þeim kosningum varð nokkuð lægra en flestar skoðanakannanir höfðu bent til að þær yrðu.

Í grein Vísis tengir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur fylgisaukninguna við embættistöku Kristrúnar Frostadóttur sem formanns Samfylkingarinnar, en hún tók við af Loga Einarssyni í október.

Píratar eru þriðji fylgishæsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með um 12,5 prósenta fylgi. Þetta er litlu meira en Framsókn, sem mælist með 12,2 prósent.

Allir þrír ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi samkvæmt könnuninni. Vinstri grænir tapa hlutfallslega mest og detta úr 12,6 prósenta kjörfylgi sínu niður í 7,8 prósent.