Fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík hefur boðað til allsherjarfundar í höfuðstöðvum flokksins að Sóltúni 26 klukkan 20.30 annað kvöld.
Tilefnið er „umræða og afgreiðsla um tillögu oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík um væntanlegt meirihlutasamstarf í Borgarstjórn Reykjavíkur.“
Þetta kemur fram í fundarboði til félaga Samfylkingarfélaganna í Reykjavík.
Fundarboð hefur legið í loftinu
Í fundarboði segir að Dagur B. Eggertsson Borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík muni fara yfir niðurstöður viðræðna og kynna málefnasamning samstarfinu til grundvallar.
Fundarboðið hefur legið í loftinu alla helgina, en það gefur sterklega til kynna að náð hafi saman með flokkunum fjórum; Samfylkingu, Framsókn, Pírötum og Viðreisn um myndun meirihluta í Reykjavík.
Fram kemur að fundurinn sé eingöngu opinn flokksfélögum í Samfylkingarfélögunum í Reykjavík.
Stefnt er að því að kynna nýjan meirihluta í Reykjavík á þriðjudag en þann sama dag er fyrsti fundur borgarstjórnar frá kosningum.

Framsókn fundar einnig á morgun
Fréttablaðið hefur einnig fengið staðfest hjá Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík að boðað hefur verið til fundar í borgarmálaráði flokksins klukkan 20 annað kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð.