Fylgi Sam­fylkingarinnar mælist 16,8 prósentu­stig í nýrri könnun MMR og er um að ræða rúm­lega fjögurra prósentu­stiga aukningu frá síðustu mælingum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnuninni á fylgi stjórn­mála­flokka og stuðning við ríkis­stjórn sem birtist ávef­síðu MMR.

Könnunin var fram­kvæmd dagana 12.-19. ágúst 2019 og var heildar­fjöldi svar­enda 990 ein­staklingar, 18 ára og eldri. Sjálf­stæðis­flokkurinn mældist með mest fylgi stjórn­mála­flokka á Al­þingi eða 19,1 prósenta fylgi. Sam­fylkingin mældist næst stærst og þá minnkaði fylgi Pírata um þrjú prósentu­stig á milli kannannna og mældist nú 11,3 prósent.

Stuðningur við ríkis­stjórnina mældist nú 38,8 prósentu­stig saman­borið við 40,3 prósent í síðustu könnun. Mið­flokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn og mældist nú með 13 prósentu­stiga fylgi en með 12,4 prósent í síðustu könnun. Vinstri grænir misstu eitt prósentu­stig og mælast nú með 11,5 prósent fylgi. Fram­sókn mældist nú með 10,4 prósenta fylgi en mældist með 8,3 prósent í síðustu könnun. Við­reisn er með 9,3 prósent og var með 9,9 prósent síðast.

Flokkur fólksins myndi ekki ná manni inn á þing væri kosið nú en flokkurinn mælist með 4,1 prósenta fylgi og mældist með 6,8 prósent í síðustu könnun. Sósíal­ista­flokkur Ís­lands mældist með 2,9 prósent fylgi og var með 3,4 prósent síðast. Aðrir flokkar mældust með 1,6 prósent í fylgi.