Það stefnir í met­fjölda utan­kjör­staðar­at­kvæða fyrir þing­kosningarnar á laugar­dag. Aldurs­dreifing þeirra sem þegar hafa kosið liggur ekki fyrir en lík­legt má telja að eldri kjós­endur séu þar fremur á ferð en hinir yngri. Ef kjör­sókn verður lítil hjá yngsta hópnum vegna veðurs, á­huga­leysis eða annarra þátta gætu Fram­sóknar­flokkur og Sjálf­stæðis­flokkur helst hagnast á því. Fræði­menn segja erfitt að á­lykta um heildar­kjör­sókn eða sam­band kosninga við veður og Co­vid fyrr en upp verður staðið.

All­nokkrir við­mælendur sem þegar hafa greitt at­kvæði segjast hafa kosið í var­úðar­skyni vegna Co­vid-á­hrifanna. Aðrir nefna fleiri þætti svo sem ferða­lög. Þá er talið lík­legt að vond veður­spá verði sumum lands­mönnum hvatning til að kjósa fyrir kjör­dag. Frétta­blaðið fjallaði í gær um hvort vond veður­spá gæti haft meiri á­hrif á suma stjórn­mála­flokka en aðra. Ekki hafa verið gerðar margar at­huganir á því en í rann­sókn könnuðu Þór­ólfur Þór­linds­son og Björn Bjarna­son sam­band veðurs á kjör­degi við út­komu. Niður­staðan varð að blíð­viðri í borgar­stjórnar­kosningum í Reykja­vík skilaði Sjálf­stæðis­mönnum 2,5 prósentum auka­lega í fylgi. Nokkuð er liðið síðan rann­sóknin var unnin. Þór­ólfur segir í sam­tali við Frétta­blaðið að val fram­bjóð­enda hverju sinni kunni einnig að hafa haft ó­til­greind á­hrif.

Í nýrri bók sem Ólafur Harðar­son stjórn­mála­fræði­prófessor skrifaði á­samt Evu H. Önnu­dóttur, Agnari Frey Helga­syni og Huldu Þóris­dóttur, Elector­al Politics in Crisis After the Great Recession Change, Fluct­u­ations and Stability in Iceland, kemur fram að yngsta kyn­slóðin kýs í minna mæli en þeir sem eldri eru. 2016 og 2017 kusu 70-75 prósent 18-34 ára kjós­enda. Kjör­sókn var aftur á móti um 90 prósent meðal kjós­enda á aldrinum 50-79 ára. Milli 70 og 80 prósent þeirra sem voru yfir átt­rætt kusu.

Ólafur segir að kjör­sókn yngstu kjós­enda hafi batnað milli 2016 og 2017 eftir átak þar um. Ekki sé vitað hvaða aldurs­hópar hafi kosið mest utan kjör­fundar í ár. „Við vitum ekki heldur hverjir eru lík­legastir til að sitja heima í ill­viðri, en getum giskað á að kul­vísir, á­huga­litlir og bíl­lausir sitji frekar heima,“ segir Ólafur.

Sam­kvæmt Kosninga­bar­áttu­könnun Ís­KOS, sem nú stendur yfir, eru Píratar og Sam­fylking mun sterkari meðal þeirra yngri en hinna eldri. Sjálf­stæðis­flokkur og Fram­sóknar­flokkur eru einkum veikari hjá yngri aldurs­hópum. Um ræðir 6.072 manna lag­skipt úr­tak úr net­panel Fé­lags­vísinda­stofnunar þar sem könnunin er dag hvern send á 184 ein­stak­linga og spurt hvað við­komandi ætli að kjósa.

„Lítil kjör­sókn þeirra yngstu myndi því helst gagnast Fram­sókn og Sjálf­stæðis­flokki, en koma niður á Pírötum og Sam­fylkingu,“ segir Ólafur