Það stefnir í metfjölda utankjörstaðaratkvæða fyrir þingkosningarnar á laugardag. Aldursdreifing þeirra sem þegar hafa kosið liggur ekki fyrir en líklegt má telja að eldri kjósendur séu þar fremur á ferð en hinir yngri. Ef kjörsókn verður lítil hjá yngsta hópnum vegna veðurs, áhugaleysis eða annarra þátta gætu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur helst hagnast á því. Fræðimenn segja erfitt að álykta um heildarkjörsókn eða samband kosninga við veður og Covid fyrr en upp verður staðið.
Allnokkrir viðmælendur sem þegar hafa greitt atkvæði segjast hafa kosið í varúðarskyni vegna Covid-áhrifanna. Aðrir nefna fleiri þætti svo sem ferðalög. Þá er talið líklegt að vond veðurspá verði sumum landsmönnum hvatning til að kjósa fyrir kjördag. Fréttablaðið fjallaði í gær um hvort vond veðurspá gæti haft meiri áhrif á suma stjórnmálaflokka en aðra. Ekki hafa verið gerðar margar athuganir á því en í rannsókn könnuðu Þórólfur Þórlindsson og Björn Bjarnason samband veðurs á kjördegi við útkomu. Niðurstaðan varð að blíðviðri í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík skilaði Sjálfstæðismönnum 2,5 prósentum aukalega í fylgi. Nokkuð er liðið síðan rannsóknin var unnin. Þórólfur segir í samtali við Fréttablaðið að val frambjóðenda hverju sinni kunni einnig að hafa haft ótilgreind áhrif.
Í nýrri bók sem Ólafur Harðarson stjórnmálafræðiprófessor skrifaði ásamt Evu H. Önnudóttur, Agnari Frey Helgasyni og Huldu Þórisdóttur, Electoral Politics in Crisis After the Great Recession Change, Fluctuations and Stability in Iceland, kemur fram að yngsta kynslóðin kýs í minna mæli en þeir sem eldri eru. 2016 og 2017 kusu 70-75 prósent 18-34 ára kjósenda. Kjörsókn var aftur á móti um 90 prósent meðal kjósenda á aldrinum 50-79 ára. Milli 70 og 80 prósent þeirra sem voru yfir áttrætt kusu.
Ólafur segir að kjörsókn yngstu kjósenda hafi batnað milli 2016 og 2017 eftir átak þar um. Ekki sé vitað hvaða aldurshópar hafi kosið mest utan kjörfundar í ár. „Við vitum ekki heldur hverjir eru líklegastir til að sitja heima í illviðri, en getum giskað á að kulvísir, áhugalitlir og bíllausir sitji frekar heima,“ segir Ólafur.
Samkvæmt Kosningabaráttukönnun ÍsKOS, sem nú stendur yfir, eru Píratar og Samfylking mun sterkari meðal þeirra yngri en hinna eldri. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru einkum veikari hjá yngri aldurshópum. Um ræðir 6.072 manna lagskipt úrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar þar sem könnunin er dag hvern send á 184 einstaklinga og spurt hvað viðkomandi ætli að kjósa.
„Lítil kjörsókn þeirra yngstu myndi því helst gagnast Framsókn og Sjálfstæðisflokki, en koma niður á Pírötum og Samfylkingu,“ segir Ólafur