Fjöldi fólks, þar á meðal repúblikanar, hafa gagn­rýnt Donald Trump, fyrr­verandi for­seta Banda­ríkjanna, fyrir að hafa boðið Nick Fuentes, öfga­sinnuðum þjóð­ernis­sinna sem er sjálfs­yfir­lýstur gyðinga­hatari, á fund með sér og Kanye West.

Meðal þeirra sem gagn­rýndu Trump var fyrrum vara­for­seti hans, Mike Pence. Hann sagði að Trump hefði sýnt afar lé­lega dóm­greind þegar hann fundaði með Fuentes og Kanye West á þriðju­daginn síðast­liðinn á heimili Trump í Flórída.

Trump til­kynnti fyrr í nóvember að hann myndi bjóða sig fram til for­seta í næstu for­seta­kosningum í Banda­ríkjunum, en þær fara fram árið 2024. Fundur þeirra þriggja fór fram nokkrum dögum eftir að Trump til­kynnti fram­boðið.

Fuentes hefur verið dyggur stuðningsmaður Trump. Hérna sést hann árið 2017 á mótmælum við háskólann í Boston.
Fréttablaðið/Getty

Umdeildir þremenningar

Fuentes hefur dreift hægri-öfga skoðunum sínum á sam­fé­lags­miðum og er þekktur innan þess sam­fé­lags. Þá neitar hann meðal annars að Hel­förin, þar sem um sex milljón gyðinga létust, hafi átt sér stað.

Kanye West til­kynnti sjálfur fram­boð sitt til for­seta um helgina. Hann hefur einnig gerst sekur um gyðinga­hatur og hafði dreift því á sam­fé­lags­miðla, en hann var meðal annars bannaður á Insta­gram og Twitter fyrir að hafa hvatt til of­beldis gegn gyðingum.

AP News segir þetta vera nýjasta þáttinn í þol­raun fyrir Repúblikana­flokkinn og hvort flokks­menn muni flykkjast að baki Trump eins og þeir hafa gert síðast­liðin átta ár. Þeir sem gegna em­bætti fyrir flokkinn hafa þó verið fljótir að for­dæma fund þeirra þriggja fé­laga.

Segist ekki hafa þekkt til Fuentes

Trump segist ekki hafa vitað hver Fuentes var áður en þeir funduðu. Trump hefur einnig neitað að tjá sig hver skoðun hans er á Fuentes eða West.

„Trump átti ekki að gefa hvítum þjóð­ernis­sinna [White nationa­list] og manni sem neitar hel­förinni sæti við borðið og ég tel að hann ætti að biðjast af­sökunar á því. Hann ætti að for­dæma þessa ein­stak­linga og haturs­fulla orð­ræðu þeirra án skil­yrða,“ sagði Mike Pence en hann er enn að vega og meta hvort hann muni sjálfur bjóða sig fram til for­seta í næstu kosningum.

„Of­stæki, hatur og gyðinga­hatur eiga ekki heima í Ameríku, þar með talið Mar-A-Lago. Af­neitun hel­fararinnar er frá­leit og hættu­leg og hana verður að for­dæma kröftug­lega,“ sagði Andrew Bates, tals­maður Hvíta hússins.