Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, var ómyrkur í máli í garð nettrölla á samfélagsmiðlum, á blaðamannafundi í gær. Hann segir samfélagsmiðla vera „höll hugleysingja“ þar sem þeir geti ausið úr skálum reiði sinnar með viðbjóðslegum hætti, öruggir í skjóli nafnleyndar.

Á miðvikudaginn greindi Barna­by Joyce aðstoðarforsætisráðherra frá því að dóttir hans og aðrir úr fjölskyldu hans hefðu mátt þola ofsóknir á samfélagsmiðlum vegna afskipta hans af stjórnmálum.

„Hér höfum við fyrirtæki sem græða milljarða dollara. Þau axla ekki ábyrgð á því sem á sér stað á miðlum þeirra. Út frá minni persónulegu reynslu undanfarið, þá kemur að því að maður segi að nú sé nóg komið,“ sagði Joyce.