Eitt ár er liðið frá því ríkis­lög­reglu­stjóri opnaði sér­staka vef­gátt 112 vegna of­beldis. Gáttinni er ætlað að auð­velda þol­endum, ger­endum og að­stand­endum að leita sér að­stoðar. Frá opnun hafa að meðal­tali 235 ein­staklingar heim­sótt síðuna á dag. Sam­kvæmt lög­reglunni er fjöldi heim­sókna tals­vert meiri en búist var við og sýnir að þörfin fyrir slíkt úr­ræði er mikil.

Al­gengt er að þau sem heim­sækja vefinn séu að leita upp­lýsinga um and­legt of­beldi og er eitt mest lesna efnið á síðunni það sem sniðið hefur verið sér­stak­lega að ungu fólki. Af þeim úr­ræðum sem kynnt eru í vef­gáttinni er al­gengast að fólk kynni sér Heimilis­frið, með­ferðar­stöð fyrir þau sem beita of­beldi í nánum sam­böndum.

Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, segir það hafa verið for­gangs­verk­efni ráðu­neytisins í Co­vid-19 far­aldrinum að grípa börn og aðra við­kvæma hópa.

„Reynslan sýnir okkur því miður að við þær að­stæður sem sköpuðust í far­aldrinum aukast líkur á að börn verði þol­endur van­rækslu og of­beldis, hvort sem það er and­legt, líkam­legt eða kyn­ferðis­legt. Það er mikil­vægt að við grípum snemma inn í til að vernda börn og aðra hópa í við­kvæmri stöðu og bjóðum upp á fjöl­breytt úr­ræði þar sem þol­endur geta leitað sér hjálpar. Þá er af­skap­lega mikil­vægt að í boði sé mark­viss með­ferð fyrir ger­endur of­beldis þar sem ger­endur fá fag­lega að­stoð við að ná tökum á hegðun sinni,” segir hann.

Fjöldi mála í hæstu hæðum

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­reglunni hafa heim­sóknir í vef­gáttina 600 sinnum leitt til net­spjalls við við­bragðs­aðila. 9.792 til­kynningar bárust til barna­verndar­nefnda á fyrstu 9 mánuðum ársins og 795 til­kynningar bárust um heimilis­of­beldi til lög­reglu. Fjöldi þessara mála er á­fram í hæstu hæðum.

Alls voru 1.049 mál tengd heimilis­of­beldi til­kynnt árið 2020, um 16 prósent fleiri en meðal­tal síðustu þriggja ára þar á undan.

Að meðal­tali eru tekin rúm­lega hundrað við­töl við ger­endur of­beldis hjá Heimilis­friði á mánuði en eftir­spurn eftir þjónustu þeirra jókst veru­lega með Co­vid-19 far­aldrinum. Árið 2021 hefur málum haldið á­fram að fjölga og höfðu 810 ein­staklingar komið í fyrsta við­tal í byrjun októ­ber.

Sam­fé­lags­legur harm­leikur

Lög­regla skipu­lagði sér­staka tólf mánaða vitundar­vakninguna 112 gegn heimilis­of­beldi og er henni nú form­lega lokið. Vef­gátt 112 gegn of­beldi fær fram­vegis varan­legan bú­stað hjá Neyðar­línunni og verður þróuð á­fram í takt við nýjustu upp­lýsingar og þekkingu. Að sögn lög­reglunnar sýnir fjöldi heim­sókna í vef­gáttina margir ein­staklingar sem þorðu ekki að hringja eru þess í stað til í að eiga sam­skipti í gegnum netið, til­kynna of­beldi þar eða kynna sér að­stoð sem er í boði.

„Heimilis­of­beldi og of­beldi gegn börnum er ekki einka­mál sem rúmast innan frið­helgi heimilisins, heldur sam­fé­lags­legur harm­leikur sem við verðum að stöðva,“ segir Sig­ríður Björk Guð­jóns­dóttir, ríkis­lög­reglu­stjóri.

„Á­hersla okkar í Co­vid-19 heims­far­aldrinum var að auð­velda fólki að leita sér að­stoðar og vef­gátt 112 gegn of­beldi var mikil­vægt skref í rétta átt. Það hjálpaði mörgum að leita sér að­stoðar út úr of­beldinu. Þótt nú sjái fyrir endann á bar­áttunni gegn Co­vid-19, heldur bar­áttan gegn heimilis­of­beldi og of­beldi gegn börnum á­fram.”