Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir lagaumgjörð í tengslum við byrlanir vera til skoðunar samhliða því sem lögreglan vinnur að bættum verkferlum í byrlunarmálum. Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri aðgerða gegn ofbeldi hjá ríkislögreglustjóra, lét þau orð falla í gær að mikilvægt væri að fara yfir lagaumhverfið og að vinna þyrfti hratt í ljós þess hve algengar byrlanir væru á skemmtanalífinu.

„Lagaumgjörðin í þessu er til skoðunar og þetta er hluti af þessu átaki sem var ýtt úr vör þegar ég kom í ráðuneytið í vetur,“ segir Jón. „Við erum á fullu að leggja áherslu á þessi mál í stóra samhenginu.“

Jón bendir á að dómsmálaráðuneytið hafi staðið fyrir átökum gegn kynferðisofbeldi á skemmtanalífinu meðal annars með átakinu undir fyrirsögninni „Þetta er bara hluti af þeirri vegferð sem við höfum verið á, þessi átök sem við höfum verið í og hafa verið undir fyrirsögninni „Verum vakandi — Er allt í góðu?“ og sambærilegum átökum um verslunarmannahelgina og á útihátíðum.

Aðspurður hvort það komi til greina að skilgreina byrlun sem sjálfstætt brot í hegningarlögum staðfestir Jón það hvorki né neitar en segir löggjöfina vera til skoðunar. Málið hafi þó ekki verið sett á þingmálaskrá fyrir næsta þingtímabil.

„Við erum að horfa framan í nýjan veruleika í þessum málum eins og svo mörgum öðrum í afbrotum,“ segir Jón. „Það er ekki útilokað að einhvern tímann geti þetta orðið hluti af skipulagðri brotastarfsemi og mansali og slíku, þótt það sé kannski ekki í byrlunarmálunum sem við sjáum á skemmtistöðum. En það þarf að nálgast breytingar á löggjöfinni bara í þessum breytta veruleika í afbrotum almennt.“

Jón segir að sterkasta vopnið gegn byrlun og kynferðisafbrotum sé samfélagsátak þar sem öll leggjast á eitt til að koma í veg fyrir glæpi af því tagi.

Þegar við öll látum okkur þetta varða og leggjumst á eitt til að koma í veg fyrir að svona glæpir eigi sér stað. „Þessi samfélagslega umræða sem við erum að reyna að koma af stað er „Ekki horfa í hina áttina“. Ef þú sérð eitthvað óeðlilegt í gangi, skiptu þér að, spyrðu hvort það sé ekki allt í góðu. Þess vegna fórum við í þetta samstarf með starfsmönnum veitingastaða, leigubíla og strætisvagna til að fá alla til að vera á vaktinni. Það verður að mínu mati í enda dagsins sterkasta vopnið okkar.“