Þorkell Máni Pétursson er markþjálfi sem starfar með ungum mönnum, hann er einnig faðir drengs sem er greindur með athyglisbrest. Hann er vægast sagt harðorður í garð kerfisins og segir hægt að gera miklu betur. „Í þessu kerfi er ein ógeðfelldasta stéttaskipting sem ég hef orðið var við á ævinni,“ segir Máni.

„Við hjónin fórum með son okkar í greiningu fyrir tæplega fimm árum. Það tók alveg 12 til 18 mánuði að klára ferlið. Þegar ferlinu lýkur og sonur okkar er kominn með greiningu með athyglisbrest og kvíðaröskun, er okkur tilkynnt að hann komist á námskeið fyrir börn með þessar greiningar. Biðtíminn er 12 mánuðir, en ef við borguðum 70 þúsund krónur kæmist hann á námskeið í næstu viku. Við áttum ekki til orð.“

Sem betur fer þurfti sonur þeirra ekki á námskeiðinu að halda og hjónin höfðu efni á að greiða fyrir aðra þjónustu fyrir hann. „Þá hugsar maður óneitanlega til allra þeirra stráka sem ég hef kynnst í gegnum tíðina í 12 spora samtökunum, drengir sem þurftu á greiningu að halda en voru ekki aldir upp við þær aðstæður að mæður þeirra hefðu efni á að borga þennan 70 þúsund kall.“

Máni segir son sinn einnig hafa verið heppinn að hafa stundað nám í Hjallastefnunni. „Hann fékk gríðarlega hlýju. Ég hef ekki orðið var við slíkt á öðrum stöðum, ekki fékk ég neitt slíkt á sínum tíma. Það voru frjálsari reglur í skólanum, hann var sendur út að hlaupa þegar hann var fullur af orku og fékk að vinna verkefnin þar sem honum hentaði.“

Hann segir mikinn misskilning að vandamálin séu smám saman að hverfa með tímanum. „Við höldum að einhverju leyti að unglingar í dag séu öðruvísi. Rannsóknir sýna að þeir reykja og drekka minna en áður, staðreyndin er líka sú að þeir eru nú að nálgast Evrópumet í klámáhorfi. Ég spyr mig, eru ungir menn ekki alveg jafn kvíðnir og óstýrilátir og þeir voru fyrir nokkrum áratugum, en í staðinn fyrir að drekka og reykja þá eru þeir að horfa á klám og spila Fortnite allar nætur?“

Kerfið getur gert mun betur þegar kemur að unglingsdrengjum að mati Mána. „Mín reynsla af því að vinna með unga menn er að þá vantar oft stefnu og tilgang. Skólakerfið á að rækta það sem þeir eru góðir í. Þjóðverjar eru góðir í þessu. Við sjáum það að þegar drengir með einhverjar raskanir, sem kallaðir eru öðruvísi, fá áhuga á einhverju þá eru þeir afbragðsgóðir í því,“ segir Máni. Einstaklingar sem passa ekki inn í kassalaga mót geta skarað fram úr á mörgum sviðum og þekkir Máni mörg dæmi um íþróttamenn, tónlistarmenn og aðra í skapandi greinum. „Ég held að ég geti fullyrt að hálft A-landslið karla í fótbolta sé ofvirkt eða með athyglisbrest.“

Máni segir það gríðarlegt tap fyrir samfélagið að taka ekki vel utan um stráka sem eru öðruvísi, finna fyrir þá leiðir og örva þá í að verða sterka einstaklinga. „Ef við gerum það ekki erum við að glutra niður fjármunum. Ég er búinn að kynnast svo mörgum strákum úr myrkrinu og get oft verið gríðarlega reiður yfir því að það hafi ekki verið tekið utan um þá og gerðar úr þeim betri manneskjur. Þetta geta oft verið hinir mestu snillingar og karakterar, en samfélagið hefur brugðist þeim.“