Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðarhrepps er formaður undirbúningsstjórnar verkefnisins. Hann segir valið hafa farið mjög vel af stað, en söfnunin fór af stað á miðvikudag. „Þetta hefur vakið mikla athygli og komnar á annað hundrað tillögur.“

Allir geta sent inn tillögu og rökstutt hana. Helgi segir rökstuðninginn oft og tíðum skemmtilegan, en einnig geti fólk tjáð sig um nöfn annara.

„Við ákváðum að hafa hugmyndasöfnunina alveg opna. Hver sem er getur sent inn hugmynd. Þú getur skráð þig inn með rafrænum skilríkjum og sent inn tillögu undir nafni, eða gert þetta nafnlaust.“ Svo virðist sem flestir kjósi nafnlausu leiðina, en þegar þessi orð eru rituð eru langflestar tillögurnar nafnlausar, ef ekki allar. Hægt er að senda inn tillögu hér.

Til stendur að virkja yngri kynslóðir í hugmyndasöfnuninni en börn í grunn- og framhaldsskólum á svæðinu munu senda inn tillögur í verkefni sem snýr að því að kynna sameininguna og fyrirkomulagið fyrir þeim aldurshópi.

Dæmi um tillögur sem hafa borist eru:

Suðurþing

Margar tillögur hafa borist varðandi heitið Suðurþing.

„Sveitarfélagið nær yfir stóran hluta S-Þingeyjarsýslu og þetta nafn kallast ágætlega á við Norðurþing,“ segir á einum stað.

Annar segir: „Tónar vel við Norðurþing og vísar til gömlu sýslumarkanna.“

Þó eru ekki allir jafn sáttir og einn nafnlaus gagnrýnandi er ómyrkur í máli:

„Ljótt nafn á sveitarfélagi norður í landi.“

Skrattafellsþing

Í nafnlausum rökstuðningi segir að Skrattafell hafi verið sá bær sem Úlfur landnámsmaður var kenndur við.

Sameinuðu þingeysku furstadæmin

Frumleg tillaga sem sækir innblástur örlítið út fyrir landssteinana. Rökstuðningur höfundar er á þá leið að nafnið sé einfalt og fágað. Þá spyr nafnlaus notandi hvort að hugsanlega væri hægt að skipta orðinu „furstadæmi“ út fyrir „ættarveldi.“

Sveitarfélagið Mývatn

Önnur tillaga er að kenna sveitarfélagið við Mývatn. Í nafnlausum rökstuðningi segir: „Mývatn er þekktasta örnefni í sveitarfélaginu og nafnið mun nýtast sveitarfélaginu og öllum íbúum þess í kynningu um ókomna framtíð. Þau rök að ekki sé hægt að nefna heilt sveitarfélag eftir einu náttúrufyrirbæri eru haldlítil enda er sveitarfélag hér í nágrenninu sem nær norður að heimskautsbaug og heitir Akureyrarbær.“

Heiðabyggð

Fleiri en einn lögðu til nafnið Heiðabyggð. „Í nýja sveitarfélaginu er fjöldi fagurra heiða og hljóðar rökstuðningur tillögunnar svo: Mývatnsheiði, Grímsstaðaheiði, Laxárdalsheiði, Fljótsheiði, Vaðlaheiði, Hvammsheiði, Flateyjardalsheiði eru allar í nýju sveitarfélagi.“

Annar rökstuddi nafngiftina þannig: „Þótt oss skilji hábrýnd heiðin. Heiðar eru áberandi í landafræði svæðisins og skilja búsetusvæðin að. Heiðarnar tengjast einnig sögu svæðisins, þarna byggðust upp fjölmörg heiðarbýli á 19. öld og er enn búið talsvert upp á heiðum, til dæmis í Stafshverfi, á Stöng og í Baldursheimi og Gautlöndum.“