Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hefur valdið miklu fjaðrafoki á Twitter.

Sendiherrann deildi tísti Donald Trump bandaríkjaforseta í gærkvöld og skrifaði við færsluna: „Saman sigrumst við á ósýnilegu Kínaveirunni." Hann lætur íslenska og bandaríska fánann fylgja tístinu.

Fjöldi Íslendinga hefur látið skoðun sína í ljós á færslu Gunter og spyr einn Katrínu Jakobsdóttur og Bjarna Benediktsson hvort það sé ekki kominn tími til að sýna fram á að Íslendingar séu ekki sammála forsetanum. Þá er sendiherrann vinsamlegast beðinn um að svívirða ekki íslenska fánann og hann beðinn um að fjarlægja hann.

Donald Trump segir í tístinu að það beri vott um föðurlandsást að bera grímu á andlitinu og segir, „enginn er meiri föðurlandsvinur en ég, uppáhalds forsetinn ykkar.“

Trump hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir að gera lítið úr kórónaveirufaraldrinum og kalla hann „Kínaveiruna". Hann mældi lengi gegn því að fólk gengi með andlitsgrímu en hefur nú snúist hugur um það og hvetur fólk til að ganga með þær.