Fyrirhuguð sameining Skógræktarinnar og Landgræðslunnar hefur valdið nokkurri úlfúð á samfélagsmiðlum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhugafólk um skógrækt og landgræðslu deilir. Skógræktarstjóri og landgræðslustjóri hafa sjá báðir tækifæri í sameiningunni en hafa ólíkar skoðanir á ágreiningnum milli hópanna.

Svandís Svavarsdóttir mat­væla­ráðherra kynnti áform sín um sameininguna í gær fyrir bæði ríkisstjórninni og starfsfólki stofnananna. Allt starfsfólk flyst yfir í nýja stofnun sem mun þó hafa margar starfsstöðvar.

Deila skógræktar- og landgræðslufólks snýst bæði um fjármagn og aðferðir. Báðar stofnanirnar hafa svipað hlutverk og hafa því að einhverju marki verið að keppa um fjárveitingar úr ríkissjóði. Hvað aðferðirnar varðar hefur meðal annars verið deilt um þær tegundir sem plantað er, til dæmis stafafuruna sem margt áhugafólk um landgræðslu telur vera ágenga.

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.
Gunnar Gunnarsson

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri segist ekki eiga von á að sameiningin lægi öldurnar milli hópanna. „Þetta endurspeglar skiptar skoðanir í samfélaginu og það mun ekkert breytast. Mismunandi áherslur verða þá innan stofnunar frekar en á milli þeirra,“ segir hann. „Þetta er lýðræðisþjóðfélag og það eiga að vera skiptar skoðanir í þjóðfélaginu. Kúnstin hjá ríkisstofnunum er að komast að því hvað meirihlutinn vill.“

Árni Bragason landgræðslustjóri tekur ekki undir að svona mikil gjá sé á milli hópanna. „Samfélagsmiðlarnir endurspegla háværan minnihlutahóp,“ segir hann.

Þröstur og Árni eru báðir komnir á aldur og láta brátt af störfum. Ekki hefur verið tilkynnt um eða auglýst hver taki við hinni nýju stofnun, sem einnig á eftir að fá heiti.

Báðir sjá tækifæri í sameiningunni, hvað varðar samlegðaráhrif og kraft til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.

Árni Bragason, landgræðslustjóri.

„Mér líst mjög vel á sameininguna. Það er mikil samleið í verkefnunum sem við erum að vinna og við höfum verið að auka samvinnuna mikið á síðustu þremur til fjórum árum,“ segir Árni.

Þröstur vonar að stærri og öflugri stofnun geti gert betur í loftslagsmálum en mikilvægt sé að standa vel að ferlinu. „Við vitum að það er hægt að klúðra sameiningum,“ segir hann.Hvorugur óttast það að halli á annað hvort skógrækt eða landgræðslu eftir sameininguna, hvað fjárveitingar og áherslur varðar. Þröstur bendir á að það sé ekki markmið með sameiningunni að draga úr fjárveitingum til málaflokkanna.

Árni bendir á að í mörgum tilvikum sé samvinna stofnananna mikil. Landgræðslan fari á undan og „geri land tilbúið fyrir tréverk“. Síðan komi Skógræktin á eftir. Besta dæmið um þetta sé Hekluskógaverkefnið sem hann segir mjög farsælt.