Ríkisendurskoðun mælir með því að fjallað verði um eftirlitshlutverk dómstólasýslunnar með stjórnsýslu dómstólanna í lögum og kveðið verði á um heimild til að skjóta til hennar ákvörðunum dómstjóra er lúta að stjórnsýslu dómstóla. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í skýrslunni sem unnin er að beiðni Alþingis segir að dómstólasýslan hafi á sínum stutta starfstíma markað sér trúverðuga stefnu og framtíðarsýn. Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við hvernig stofnunin hefur sinnt sameiginlegri stjórnsýslu dómstólanna. Hún hafi staðið undir þeirri ábyrgð sem henni var falið við gildistöku nýrra dómstólalaga.

Í skýrslunni er þó ítrekað að dómstólasýslan þurfi að hafa aðgang að sérfræðiþekkingu í tölvu- og tæknimálum en hún hefur leitt þróun tölvu- og tæknimála innan hennar og fyrir dómstólana án þess að búa yfir sérstakri sérþekkingu í málaflokknum. Stofnunin hafi til dæmis ráðist í útboð á tölvuþjónustu án þess að geta leitað leiðsagnar eða ráðgjafar sérfræðinga í sínu fagráðuneyti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er einnig mælst til þess að metið verði hver annars vegar fagleg og hins vegar fjárhagsleg samlegðaráhrif yrðu af sameiningu héraðsdómstóla og bent á að við fámennustu dómstólana starfi aðeins einn dómari. Það sé ekki ákjósanleg staða í ljósi eftirlitsvalds dómstjóra.