Þegar eigandi leggur til fimm milljarða dala, eða 694 milljarða íslenskra króna, til þess eins að byggja íþróttavöll er eins gott að sá völlur verði einstakur. Pressan eykst þegar völlurinn er í miðborg Los Angeles fyrir NFL-lið sem var að flytjast til borgarinnar. Það var ekkert til sparað við að gera völlinn sem nútímalegastan og einstakan á heimsvísu.

Einn þeirra sem eiga stóran þátt í hönnun tækninnar á SoFi-vellinum er Skarphéðinn Héðinsson. Skarphéðinn er framkvæmdastjóri tæknimála (e. chief technology officer) hjá Los Angeles Rams og SoFi-vellinum.

„Það er hægt að taka undir að þetta sé flottasti völlur heims og ég hef alveg gefið það út að það sé erfitt að sjá hvernig þetta verður toppað í mjög langan tíma. Það eru svo margir hlutir sem þurfa að smella, eins og gerðist hjá okkur. Ég get sagt að það heppnaðist betur en við þorðum að vona og það er alveg ótrúleg upplifun að koma á völlinn,“ segir hann.

Skarphéðinn hefur búið í Bandaríkjunum í tæp þrjátíu ár eftir að hafa stundað háskólanám við University of Washington. Þar lærði hann tölvunarfræði áður en inter­netið ruddi sér til rúms.

Mynd/Aðsend

Eftir útskrift vann hann hjá hinum ýmsu sprotafyrirtækjum í Seattle. „Það er ótrúlegt að segja að maður hafi lært tölvunarfræði svo gott sem fyrir komu internetsins. Þar hófst þetta allt saman,“ segir Skarphéðinn hlæjandi. Sjálfur er hann íþróttaáhugamaður og tók tækifærinu fagnandi þegar Walt Disney keypti sprotafyrirtækið Starwave fyrir ESPN og hann hóf störf hjá ESPN, stærstu íþróttaveitu heims. „Starwave var brautryðjandi þegar kom að því að framleiða efni fyrir vefinn. Á þessum tíma varð bylting í fréttaflutningi af íþróttum. Áherslan færðist yfir á netið og hvernig hægt væri að koma efni þangað.“

Frá ESPN til Los Angeles

Þegar ESPN flutti höfuðstöðvar sínar á Austurströndina bauðst Skarphéðni að vinna fyrir Disney og ABC í Los Angeles. Hann býr nú í Los Angeles ásamt eiginkonu sinni, Lynneu, og á tvær dætur, Isabel og Freyju.

Hjá Disney vann hann sem yfirmaður tæknimála í tólf ár, en áhuginn á að vinna við að samtvinna íþróttir og tækni var aldrei langt undan. Árið 2016 hafði einstaklingur sem var að aðstoða Rams í stjórnendaráðningum samband við Skarphéðin.

„Íþróttaáhuginn blundaði alltaf í manni. Rams höfðu fyrst samband þegar ég var með fjölskyldu minni á EM 2016 í Frakklandi og hugmyndir liðsins heilluðu mig undir eins. Rams var að flytja til Los Angeles og vildi fá mig í vinnu fyrir nýjan völl. Stan Kroenke, eiganda félagsins, bauðst frábært tækifæri þegar hann gat keypt þetta land í Los Angeles og þá fór boltinn að rúlla. Þetta er eitt stærsta fasteignaverkefni Bandaríkjanna og er stór hluti af uppbyggingu Inglewood. Í þessu tilviki varstu með góðan tímapunkt, rétta staðsetningu, eiganda sem var til í að borga fyrir völlinn og tvö NFL-lið að bíða eftir velli.“

Rams er ekki eina félagið í NFL sem notast við völlinn því Los Angeles Chargers gerði tuttugu ára leigusamning við Kroenke. Raiders sýndi áhuga að deila vellinum með Rams en þegar Chargers varð fyrir valinu fluttist Raiders frá Oakland til Las Vegas.

Hitastigið í Los Angeles gerði arkitektunum kleift að fara áður ótroðnar slóðir í hönnun vallarins.

„Þetta er mjög sérstök en falleg hönnun, eins og Stan vildi. Hann vildi ekki loka fólk inni í Kaliforníu og vildi tryggja þægilegt andrúmsloft. Fyrsta hindrunin var að við gátum ekki byggt völlinn frá grunni vegna hæðartakmarkana. Það þurfti því að grafa þrjátíu metra dal í jörðina og við byggðum völlinn inn í hann. Þakið er svo einstakt á heimsmælikvarða. Það er nokkurs konar sólhlíf sem dregur úr áhrifum sólarinnar og kemur með þægilegt andrúmsloft á sólríkum dögum en skýlir ef það fer að rigna. Þá er völlurinn að stóru leyti opinn til að hleypa golu inn frá sjónum og gera hann sjálfbærari.“

Þakið er nokkurs konar sólhlíf sem skýlir áhorfendum þegar það fer að rigna.
Mynd/SoFi Stadium

Hluti af undirbúningnum voru margar ferðir á aðra velli í Bandaríkjunum til að taka út velli keppinautanna.

„Þetta voru þrjú ár af stanslausu fundahaldi, að skoða teikningar og ferðalög með liðinu að skoða aðra velli til að kanna hvað er vel gert á hverjum velli fyrir sig. SoFi er stærsti NFL-völlur Bandaríkjanna í fermetratali, 288 þúsund fermetrar. Hann er því tvöfalt stærri en US Bank-völlurinn í Minnesota sem var teiknaður af sömu arkitektum, þó að vellirnir taki svo gott sem jafn marga. Í heildina er völlurinn byggður á átta hæðum. Flestir vellir í Bandaríkjunum eru ein til þrjár hæðir, en með átta hæðum tryggir þú gott útsýni úr öllum sætum. “

Einstakur skjár á heimsvísu

Meðal þess sem völlurinn býður upp á er að koma skilaboðum áleiðis á þakinu, sem sjást þegar flugvélar koma inn til lendingar á alþjóðaflugvellinum í Los Angeles.

„Ljósabúnaðurinn fyrir utan völlinn er þannig að við getum notað hann eins og skjá. Þakið telur 28 þúsund pixla, sem býður upp á að sýna myndir eða skilaboð á þakinu, sem sjást þegar flugvélar koma inn til lendingar. Það býður upp á alls konar möguleika.“

Ein af nýjungum vallarins er Oculus-skjár, sem er 997 tonn og liggur í hring yfir öllum vellinum. Ekki hefur fengið staðfest hvað skjárinn kostaði en bandarískir fjölmiðlar fullyrða að það sé meira en hundrað milljónir dala.

„Þessi skjár er magnaður. Ég hef umsjón með öllum þeim deildum sem koma að tækni hjá félaginu og því meðal annars skjánum. Við komum að allri tækninni til að koma að öllu því sem til þarf á þennan skjá. Það er okkar að búa til efni sem birtist á skjánum, sem er þrettán metrar á hæð og nær yfir allan völlinn. Það var mikil spenna daginn sem hann fór á loft. Ég hef oft verið spurður hvernig hægt sé að byggja mannvirki eins og þetta sem á sér engin fordæmi og setja upp skjá eins og þennan og ég sagði að þetta væri svolítið eins og að hengja fjölbýlishús á þakið á öðru húsi,“ segir Skarphéðinn léttur og heldur áfram:

„Það eru margir dagar af skipulagsvinnu að baki, við að skoða teikningar, vinna í burðarvirkinu og gæta þess að vera ofboðslega nákvæmir. Það eru 80 milljónir LED-lampa í skjánum í skápum sem eru hengdir á stálið. Þegar þessu var lyft mátti ekkert togast til eða fara úrskeiðis. Það var stærsti hausverkurinn fyrir fram en þetta eru miklir fagmenn sem unnu í þessu.“

Skarphéðinn fékk svo þann heiður að kveikja á skjánum.

„Við vorum búnir að undirbúa þetta vel í langan tíma. Þegar hann var kominn upp var undir mínum mönnum komið að læra hvernig hægt væri að nýta þetta. Þetta er auglýsingapláss en á sama tíma skjár til að koma upplýsingum um viðburði, stöðu annarra leikja í deildinni og vekja upp stemmingu. Það er alltaf flötur á skjánum í augnhæð, sama hvort þú situr uppi í efri sætunum, neðstu sætunum eða einum af 260 svítunum á vellinum. Það þarft hvorki að horfa til hliðar né upp til að sjá skjáinn eins og þekkist víða því hvert einasta sæti hefur óhindrað útsýni á skjáinn. Þessir skjáir skipta afar miklu í upplifun aðdáenda á vellinum. Við erum alltaf að keppast við sjónvarpsstöðvarnar um áhorfendur og viljum því að það sé upplifun að koma á völlinn. Skjárinn er hluti af því.“

Fyrir vikið er búið að setja upp sjónvarpsstöð inni á vellinum til að framleiða efni.

„Það var eitt að setja upp slíkan skjá, en því fylgdi að við þurftum að byggja útsendingarstúdíó af sömu stærðargráðu og stærstu sjónvarpsstöðvarnar nota á vellinum, til að framleiða efni fyrir skjáinn. Við erum með sömu tækni og CNN, ESPN og erum í raun bara með sjónvarpsstöð innanhúss,“ segir Skarphéðinn og nefnir dæmi.

„Við gerðum heiðursmyndband fyrir Eddie van Halen þegar hann lést á dögunum. Eddie var fæddur og uppalinn hérna í Los Angeles og til að heiðra minningu hans spiluðum við myndbandið á skjánum með tónlistinni hans undir og deildum því á samskiptamiðlunum okkar.“

Útsýnið frá öllum hæðum er frábært á SoFi vellinum
fréttablaðið/getty

Að sögn Skarpa hafa stærstu stjörnur Rams liðsins, Jared Goff og Aaron Donald, verið afar ánægðir með fyrstu kynni af vellinum.

„Leikmennirnir eru búnir að fylgjast með þessu í nokkur ár, sérstaklega þeir sem hafa verið í lengri tíma eins og Goff og Donald. Þeir virðast vera hæstánægðir með nýja völlinn. Þeir sjá auðveldlega á skjáinn af hliðarlínunni og geta því auðveldlega fylgst með. Fyrir leikmenn útiliðsins getur það tekið smá tíma að venjast skjánum og hann gæti virkað sem smá truflun því það er erfitt að líta af honum.“

Engir áhorfendur komnir

Þrátt fyrir áhrif heimsfaraldursins var völlurinn tilbúinn á réttum tíma fyrr á þessu ári. Það er hins vegar bið eftir því að fyrstu áhorfendurnir fái að mæta á leikina, enda áhorfendabann vegna COVID-19 í Kaliforníu.

„Þetta var ofboðslega súrrealísk tilfinning í fyrsta leiknum. Okkur tókst að klára völlinn í tæka tíð þrátt fyrir áhrif kórónaveirunnar. Það voru margir sem unnu í fjarvinnu að heiman, en samt tókst okkur að halda skipulagi og stand­ast áætlanir með þeim sem unnu hér. Að skila þessu af sér undir þessum skilyrðum var mikið afrek. Þegar verður litið til baka mun maður vera stoltur af því, en þá var líka mjög súrrealískt að það var enginn á opnunarleiknum. Þetta er eitthvað sem við ráðum ekki við, en það er skrýtið að vita ekki hvenær áhorfendur fá að koma á völlinn.“

Völlurinn verður nýttur á Ólympíu­leikunum 2028 og hýsir Super Bowl eftir tæpa átján mánuði. Þá er búið að úthluta vellinum úrslitaleik háskólaruðningsins árið 2023.

„Völlurinn er byggður fyrir áhorfendur og auðvitað er fjarvera þeirra mikil vonbrigði en á sama tíma vitum við að það kemur að því að þeir fái að mæta á ný. Vonandi verður það á þessu tímabili en ég er ekki viss, það er ekki í okkar höndum. Við erum því að undirbúa fyrsta leikinn hérna með aðdáendum á sama tíma og við erum byrjaðir að undirbúa Super Bowl sem er á dagskrá í ársbyrjun 2022. Það eru 27 ár síðan Super Bowl fór síðast fram í Los Angeles, en þessi völlur er gerður fyrir viðburði eins og Super Bowl.“

Stutta stund tekur að breyta vellinum í tónleikastað og geta þá rúmlega áttatíu þúsund manns mætt á tónleika. Aðspurður segist Skarphéðinn sjá fram á að þar verði einn besti tónleikastaður Bandaríkjanna á næstu árum.

„Hljómkerfið á vellinum er magnað. Það eru 270 hátalarar í skjánum sem beinast inn í stúkurnar og þú færð það því beint í æð. Þegar það kemur svið í miðjuna er hægt að taka við 82 þúsund manns. Að mörgu leyti erum við jafn spenntir fyrir tónleikahaldi og íþróttunum.“

Á næstu árum rís körfuboltahöll í fremstu röð rétt hjá SoFi vellinum sem mun hýsa Los Angeles Clippers í NBA-deildinni. Það gæti því orðið heilmikið líf á svæðinu.

„Markmiðið var að gera þetta að almenningssvæði sem fólk sækist þótt að það sé ekki leikur. Það stendur til að byggja íbúðahús, opna verslanir og matsölustaði á svæðinu. Svo er von á skrifstofu NFL á svæðið sem hýsir NFL Network og átta hundruð starfsmenn þeirra.“

Sjálfur er Skarphéðinn kominn með skrifstofu á vellinum en vegna útbreiðslu COVID-19 eru ekki allir starfsmennirnir fluttir inn á völlinn.

„Það er mjög sérstakt að labba út af hefðbundri skrifstofu sem gæti í raun verið hvar sem er í heiminum en með nokkrum skrefum er ég kominn inn í stúkuna.“

Völlurinn er á átta hæðum og var grafinn um þrjátíu metra niður í jörðina.
fréttablaðið/getty