Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, telur að felld sameiningarkosning Snæfellsbæjar og Eyja-og Miklaholtshrepps hafi ekki áhrif á þá kosningu sem fer fram í Stykkishólmi og Helgafellssveit um helgina. En þessar tvær kosningar hafa verið nefndar sem hugsanlegur millileikur fyrir stærri sameiningu á öllu Snæfellsnesi.

Verði sameiningin samþykkt næstkomandi laugardag verður til sveitarfélag með um 1300 íbúa. Einnig er kosið um sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps, sem yrði sveitarfélag með 600 íbúa.

Jakob segir erfitt að segja nokkuð um hver niðurstaðan gæti orðið. Almenn umræða hafi ekki verið mikil í bænum en búið sé að kynna málið á íbúafundum og umræður þar hafi verið góðar. Nú þegar sé samvinna sveitarfélaganna mjög mikil, svo sem í skólamálum, félagsmálum og skipulagsmálum.

„Samstarfsnefndin sér fyrir sér að hér geti skapast tækifæri til skilvirkari og markvissari stjórnsýslu,“ segir Jakob. „Aðgengi íbúanna að þjónustunni yrði jafnara, ekki síst í dreifbýlinu.“

Fulltrúar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hafa einnig átt í óformlegum samtölum við fulltrúa Dalabyggðar um mögulega sameiningu. Þá hafa fulltrúar Grundarfjarðarbæjar átt frumkvæðið að umræðu um sameiningu á öllu Snæfellsnesi. Jakob segir kosningarnar núna um helgina ekki útiloka neitt af þessu, heldur þvert á móti gera slíka möguleika einfaldari þegar fram líði stundir.

„Þessar sameiningarkosningar sem við höldum núna breyta ekki öðrum viðræðum sem við erum í,“ segir Jakob.