„Það eru því verulegar líkur á að Skálatún komist fljótlega í greiðsluþrot verði ekki gerður nýr þjónustusamningur sem tekur mið af rekstrarumfangi stofnunarinnar,“ segir í áritun endurskoðenda með ársreikningi Skálatúnsheimilisins fyrir síðasta ár.

Sjálfseignarstofnunin Skálatún rekur heimili í Mosfellsbæ fyrir fólk með þroskahömlun. Samanlagt rekstrartap 2016-2019 er 216 milljónir króna, að því er segir í ársskýrslu Skálatúns. Rekstrartapið var 81,5 milljónir króna í fyrra og 74,3 milljónir árið 2018. Heimilið hefur verið rekið samkvæmt þjónustusamningi sem Mosfellsbær yfirtók af ríkinu árið 2011.

Í skýrslu setts framkvæmdastjóra Skálatúns, Þóreyjar I. Guðmundsdóttur, sem lögð var fyrir aðalfund Skálatúns í júlí, kemur fram að frá því í fyrra hafi verið gerðar tvær úttektir og greiningar á stöðunni. Síðari úttektina gerði hún raunar sjálf, áður en hún settist tímabundið í stól framkvæmdastjóra með það verkefni að gera rekstur Skálatúns sjálfbæran. Íbúum hefur fækkað um sex fá árinu 2017.

Segir í skýrslu Þóreyjar að lítið hafi verið brugðist við með lækkun kostnaðar.„Sem dæmi má nefna að sambýlið Austurhlíð er með sex íbúa og er áætlaður rekstrarkostnaður þess sambýlis um 103 milljónir króna,“ segir í skýrslu Þóreyjar. „Annað dæmi er sambýlið Fagrahlíð sem er með þrjá íbúa og er áætlaður rekstrarkostnaður þess sambýlis um 82,5 milljónir króna.“

Íbúar í Skálatúni voru í júlí 35 talsins í tólf íbúðum og fjórum herbergjasambýlum, að því er fram kemur í samantekt sem lögð var fram á aðalfundinum og er skrifuð af Önnu Kristínu Gunnlaugsdóttur, sviðsstjóra þjónustusviðs Skála­túns. Kveður þar við nokkuð þungan tón. Segir Anna heimilismenn vera að eldast og að þjónustan við hvern og einn aukist að sama skapi. Samt sé reynt að skapa íbúum sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna.

„Til þess að það sé gerlegt þarf þeim sparnaði sem hefur verið viðvarandi alltof lengi að linna. Það segir sig sjálft að þó svo að allir séu af vilja gerðir þá kemur að því að það er ekki hægt að veita þá þjónustu sem við viljum veita. Gríðarlegt álag kemur meðal annars fram í því að fjarvistir starfsfólks vegna veikinda eru viðvarandi og í sumum tilfellum gefst fólk upp og hættir,“ segir Anna í umsögn sinni.

Bætir Anna því við að algengt sé að starfsfólk ferðist innan lands og utan með íbúana. Það sé gert meira og minna í sjálfboðavinnu og eigi það einnig við um félagslíf eins og að sækja tónleika, leikhús og slíkt.

„Við erum að leita leiða til að hagræða í rekstrinum en grundvallar­atriðið er að þjónustan verður ekki skert á nokkurn hátt,“ undirstrikar Þórey, framkvæmdastjóri Skálatúns.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, tekur í svipaðan streng. Til skoðunar séu ákveðin atriði sem sett voru fram í rekstrar­áætlun fyrir árin 2020 til 2022. Ein meginstoðin í hagræðingu sé sameining tveggja fámennra búsetueininga, þeirra sem fyrr eru nefndar. „Það er hægt að sameina rekstur á einingum án þess að ganga á gæði þjónustunnar nema síður sé,“ leggur Sigurbjörg áherslu á.

Stöðufundur um málefni Skála­túns er áætlaður í sveitarstjórnarráðuneytinu á mánudag.