Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði á Alþingi í dag að það væri sameiginlega niðurstaða Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytisins að sala á flugvélinni TF-SIF væri skaðminnsta aðgerðin, til að mæta rekstrarvanda gæslunnar. Þetta kom fram í svörum Jóns í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Jón hvernig Landhelgisgæslan ætti að sinna sínu lögbundnu starfi án flugvélarinnar en áður hafði farið fram heit umræða um málið undir liðnum störf þingsins. Helga sagði að það væri með öllu óboðlegt að selja einu flugvél gæslunnar til að minnka rekstrarkostnað.
„Hér fara menn mikinn yfir því að gæslunni hefur verið falið að undirbúa sölu á TF-SIF flugvélinni. Söluheimild verður síðan sótt til þingsins í framhaldi að því. Það lá fyrir í desember að rekstur Gæslunnar yrði erfiður og eftir ítrekaða fundi, milli yfirmanna Gæslunnar og dómsmálaráðuneytisins, barst bréf 18. desember frá Landhelgisgæslunni þar sem margar leiðir voru viðraðar um hvernig við gátum brugðist við. Það var sameiginlega niðurstaða okkar að þessi væri skaðminnst,“ svaraði Jón.
„Þessi ákvörðun mun líka styðja við öflugan rekstur varðskipa og þyrlna þar sem við höfum styrkt stöðu okkur meðal annars með kaupum á nýju öflugu varðskipi,“ bætti Jón við.
„Hefur verið flogið innanlands í um 100 tíma á ári“
Jón sagði að áhrif sölunnar á öryggi landsins væri lágmörkuð þar sem vélin er búin að vera í verkefnum erlendis í sex mánuði á ári undanfarin árþ
„Eins og kemur fram í bréfi Landhelgisgæslunnar þá er þessi vél búin að vera í verkefnum erlendis í sex mánuði á ári undanfarin ár og vegna viðhalds, þjálfunar flugmanna og orlofs þá hefur henni verið flogið hér innanlands innan um 100 tíma á ári undanfarin ár,“ sagði Jón og bætti við að það gæfi auga leið það hefur ekki áhrif á öryggissjónarmiðin.
Ísland hefur heimil til að kalla vélina úr verkefnum erlendis ef um alvarlega atburði er að ræða og hefur það aldrei verið gert.
Jón sagði vélina mjög dýra í rekstri og það liggja fyrir kostnaðartölur fyrir uppfærslur á tækjabúnaði vélarinnar sem nema einhverjum hundruð milljónir króna.
„Það eru til aðrar hagkvæmari lausnir sem að við erum að horfa til einkum til, einkum til eftirlits eftirlits á ytri starfssvæðum. Það verður að tryggja þá viðveru á ársgrundvelli. Sá undirbúningur er hafinn meðal annars með viðræðum við Isavia hvort það væri álitlegt að fara í samrekstur á þeim vélum,“ sagði Jón og lofaði að það yrði fundinn lausn á öryggissjónarmiðum.

Helga Vala sagði að þetta sýndi stefnuleysi ríkisstjórnarinnar þar sem ekki lægi fyrir hvað ætti að koma í staðinn fyrir TF-SIF.
Helga spurði hvernig það stæði á því að vélin væri gagnslaus og þarflaus í dag, þegar hún var keypt eftir fjögurra ára þarfagreiningu. Það væri pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar að reka gæsluna með þeim hætti að það þurfi að leigja vélina út.
Jón hafnaði því að um stefnuleysi væri að ræða og sagði að það væri nóg til af flugvélum í landinu.
„Þær hafa nýst mjög vel í almannavarnaástandi t.d. í flutningum á björgunarliði, sjúkraflugi og svo framvegis. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að við leitum annarra lausna til að sinna sérstaklega eftirliti á ytri hafsvæðum og munum við gera það í samræmi við Landhelgisgæsluna,“ sagði Jón að lokum.
