Jón Gunnars­son dóms­mála­ráð­herra sagði á Al­þingi í dag að það væri sam­eigin­lega niður­staða Land­helgis­gæslunnar og dóms­mála­ráðu­neytisins að sala á flug­vélinni TF-SIF væri skað­minnsta að­gerðin, til að mæta rekstrar­vanda gæslunnar. Þetta kom fram í svörum Jóns í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á Al­þingi í dag.

Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, spurði Jón hvernig Land­helgis­gæslan ætti að sinna sínu lög­bundnu starfi án flug­vélarinnar en áður hafði farið fram heit um­ræða um málið undir liðnum störf þingsins. Helga sagði að það væri með öllu ó­boð­legt að selja einu flug­vél gæslunnar til að minnka rekstrar­kostnað.

„Hér fara menn mikinn yfir því að gæslunni hefur verið falið að undir­búa sölu á TF-SIF flug­vélinni. Sölu­heimild verður síðan sótt til þingsins í fram­haldi að því. Það lá fyrir í desember að rekstur Gæslunnar yrði erfiður og eftir í­trekaða fundi, milli yfir­manna Gæslunnar og dóms­mála­ráðu­neytisins, barst bréf 18. desember frá Land­helgis­gæslunni þar sem margar leiðir voru viðraðar um hvernig við gátum brugðist við. Það var sam­eigin­lega niður­staða okkar að þessi væri skað­minnst,“ svaraði Jón.

„Þessi á­kvörðun mun líka styðja við öflugan rekstur varð­skipa og þyrlna þar sem við höfum styrkt stöðu okkur meðal annars með kaupum á nýju öflugu varð­skipi,“ bætti Jón við.

„Hefur verið flogið innan­lands í um 100 tíma á ári“

Jón sagði að á­hrif sölunnar á öryggi landsins væri lágmörkuð þar sem vélin er búin að vera í verk­efnum er­lendis í sex mánuði á ári undan­farin árþ

„Eins og kemur fram í bréfi Land­helgis­gæslunnar þá er þessi vél búin að vera í verk­efnum er­lendis í sex mánuði á ári undan­farin ár og vegna við­halds, þjálfunar flug­manna og or­lofs þá hefur henni verið flogið hér innan­lands innan um 100 tíma á ári undan­farin ár,“ sagði Jón og bætti við að það gæfi auga leið það hefur ekki á­hrif á öryggis­sjónar­miðin.

Ísland hefur heimil til að kalla vélina úr verk­efnum er­lendis ef um al­var­lega at­burði er að ræða og hefur það aldrei verið gert.

Jón sagði vélina mjög dýra í rekstri og það liggja fyrir kostnaðar­tölur fyrir upp­færslur á tækja­búnaði vélarinnar sem nema ein­hverjum hundruð milljónir króna.

„Það eru til aðrar hag­kvæmari lausnir sem að við erum að horfa til einkum til, einkum til eftir­lits eftir­lits á ytri starfs­svæðum. Það verður að tryggja þá við­veru á árs­grund­velli. Sá undir­búningur er hafinn meðal annars með við­ræðum við Isavia hvort það væri á­lit­legt að fara í sam­rekstur á þeim vélum,“ sagði Jón og lofaði að það yrði fundinn lausn á öryggis­sjónar­miðum.

TF- SIF flugvél Landhelgisgæslunnar.
Fréttablaðið/Aðsend

Helga Vala sagði að þetta sýndi stefnu­leysi ríkis­stjórnarinnar þar sem ekki lægi fyrir hvað ætti að koma í staðinn fyrir TF-SIF.

Helga spurði hvernig það stæði á því að vélin væri gagns­laus og þarf­laus í dag, þegar hún var keypt eftir fjögurra ára þar­fa­greiningu. Það væri pólitísk á­kvörðun ríkis­stjórnarinnar að reka gæsluna með þeim hætti að það þurfi að leigja vélina út.

Jón hafnaði því að um stefnu­leysi væri að ræða og sagði að það væri nóg til af flug­vélum í landinu.

„Þær hafa nýst mjög vel í al­manna­varna­á­standi t.d. í flutningum á björgunar­liði, sjúkra­flugi og svo fram­vegis. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að við leitum annarra lausna til að sinna sér­stak­lega eftir­liti á ytri haf­svæðum og munum við gera það í sam­ræmi við Land­helgis­gæsluna,“ sagði Jón að lokum.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari