Samgöngur „Við vorum að breyta áætluninni frá og með 1. september og erum að fækka ferðum á flesta áfangastaði okkar,“ segir Ásgeir Örn Þor­steins­son, sölu- og markaðsstjóri flug­fé­lags­ins Ern­is. „Við erum í hagræðingaraðgerðum, bæði að fækka ferðum, erum einnig með vélar í söluferli og gerum ráð fyrir samdrætti í starfsmönnum, en ekki miklum.“

Air Iceland Connect tilkynnti nýverið að það myndi fækka ferðum yfir háveturinn og selja tvær af sex vélum félagsins til að bregðast við aðstæðum á markaði. Farþegum hefur fækkað um 10 prósent, fækkunin er hlutfallslega mun meiri þegar kemur að erlendum ferðamönnum, allt að 40 prósent færri í ár en í fyrra.

Ferðum Air Iceland Connect á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar fækkar úr tveimur í eina á dag á þriðjudögum og miðvikudögum frá nóvember fram í febrúar. Ferðum til Egilsstaða fækkar á sömu dögum úr þremur í tvær á sama tímabili. Nýverið tilkynnti félagið einnig að það myndi hætta að fljúga á milli Keflavíkur og Akureyrar í haust.

Sama er uppi á teningnum hjá flugfélaginu Erni. „Við erum að fækka ferðum til Vestmannaeyja, úr 14 niður í 10 á viku,“ segir Ásgeir Örn. „Við erum einnig að fækka ferðum til Húsavíkur niður í átta. Svo fækkum við um eina ferð á Hornafjörð.“

Einnig stendur til að fækka flugvélum. Ernir er í dag með fjórar vélar sem taka 19 farþega hver, eina 32 sæta vél ásamt minni vélum fyrir útsýnisflug.

„Það er einhver lægð í gangi, bæði meðal innlendra sem og erlendra farþega,“ segir Ásgeir Örn. „Við erum á sömu skoðun og Air Iceland Connect með framtíðina, við teljum að markaðurinn eigi eftir að jafna sig. Núna erum við bara að bregðast við stöðunni eins og hún er núna. Við erum viðbúin að gefa í þegar það gerist.“

Norlandair, sem flýgur frá Akureyri á aðra áfangastaði á Norðurlandi og til Grænlands, hefur ekki fundið fyrir samdrætti. „Við siglum bara sama sjó,“ segir Friðrik Adolfsson, forstjóri Norlandair. „Afkoma okkar byggist frekar lítið á innanlandsflugi, við erum mest á Grænlandi, og það er allt í góðum gír.“

Sama á við um Mýflug. „Við höfum ekki fundið fyrir neinum samdrætti,“ segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs. „Við erum ekkert að fara að draga saman seglin.“

Samdráttur í komu erlendra ferðamanna til landsins hefur bitnað mikið á þyrluflugi að sögn Birgis Ómars Haraldssonar, framkvæmdastjóra Norðurflugs, en nánast níu af hverjum tíu farþegum félagsins eru erlendir. „Það er þannig að við vorum taldir leiðinda svartsýnispúkar á síðastliðnu ári, en kannski erum við bara bjartsýnispúkar miðað við stöðuna í dag,“ segir Birgir Ómar.

„Við gripum til aðgerða í fyrra þar sem óveðursskýin voru að hrannast upp að okkar mati en fáir voru okkur sammála og forðuðust mig í veislum enda ekkert gaman að tala um leiðindamál.“ Birgir Ómar er ekki bjartsýnn á stöðuna og útilokar ekki að selja þyrlur. „Þessi vetur verður ekki auðveldur. Ferðaþjónusta verður alltaf til staðar en hvernig hún þróast næstu ár er erfitt að segja til um á þessari stundu.“