Kostnaður við verklegar framkvæmdir hins opinbera á þessu ári, er áætlaður um 109 milljarðar króna, en það er 15 milljörðum króna minna en á síðasta ári.

Þetta kom fram á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í gær. Þar var áhyggjum lýst vegna samdráttarins.

Í greiningu samtakanna segir að þau leggi áherslu á mikilvægi þess að innviðauppbygging sé næg og viðhaldi innviða sé sinnt, en með því sé rennt stoðum undir hagvöxt framtíðarinnar. Því telji samtökin mikilvægt að ekki sé dregið úr útboðum opinberra fjárfestinga á sviði innviða.