Hæsti­réttur komst að því í dag að Lands­réttur verður að taka til efnis­með­ferðar mál Heiðu Bjargar Scheving en Lands­réttur felldi úr gildi niður­stöðu héraðs­dóms í málinu í maí vegna van­reifunar og vísaði því frá.

Fjallað var um mál Heiðu Bjargar í Frétta­blaðinu fyrr á árinu en hún missti sam­býlis­mann sinn til þrettán ára skyndi­lega árið 2019. Heiða Björg hefur síðan, eða í nærri tvö ár, átt í deilum við fjögur af sex syst­kinum hans um rétt sinn til helmings eigna þeirra og réttinn til að búa á­­fram á sam­eigin­­legu heimili þeirra. Héraðs­dómur komst að því í mars að hún ætti rétt á helmingi allra eigna sem skráðar voru í dánar­bú sam­býlis­­manns hennar en systkinin kærðu þá niðurstöðu til Landsréttar.

Í niður­­­stöðu héraðs­­dóms var farið ítar­­lega yfir eignir þeirra við upp­­haf sam­bandsins og svo þegar sam­býlis­maður hennar skyndi­­­lega lést. Í niður­­­stöðunni sagði að greini­­legt væri að á sam­búðar­­tíma þeirra hafi orðið „mikill við­­snúningur á fjár­hags­­stöðu hans“ en á meðan þau voru saman tóku þau gamalt fjós í gegn á landi hans og breyttu því í veitinga­hús. Þá kom einnig fram að þrátt fyrir að þau hafi talið fram hvort í sínu lagi þá hafi fjár­hagur þeirra verið al­­ger­­lega sam­ofinn.

Verða að úrskurða á ný

Niður­staðan var kærð til Lands­réttar sem að, eins og fyrr segir, felldi úr­skurð héraðs­dóms úr gildi byggt á því að málið hafði verið van­reifað í héraðsdómi vegna þess að ekki hefði verið út­skýrt nægi­lega vel til­kall Heiðu Bjargar til til­tekinna eigna vegna þess að ólík sjónar­mið gætu ráðið niður­stöðu í hverju til­viki.

Hæsti­réttur féllst ekki á að krafa hennar hefði verið van­reifuð og var því úr­skurður Lands­réttar felldur úr gildi og málinu vísað aftur til Lands­réttar til lög­legrar með­ferðar og úr­skurðar að nýju.

„Í yfir­standandi dóms­máli hefur Heiða sett fram þá hóg­væru kröfu að vera talin eig­andi að helmingi þeirra eigna sem skráðar voru á Pál Magnús, sam­býlis­mann hennar, á dánar­degi hans. Sú krafa var tekin til greina í héraðs­dómi,“ segir Guð­jón Ár­manns­son, lög­maður Heiðu Bjargar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir að af ein­hverjum á­stæðum hafi svo verið lögð á­hersla á að krafa henni fái ekki efnis­með­ferð.

„Af ein­hverjum á­stæðum hafa gagn­aðilar Heiðu lagt á­herslu á að krafa hennar fái ekki efnis­með­ferð. Settu gagn­aðilar hennar því fram frá­vísunar­kröfu sem hefur leitt til þess að málið hefur tafist mjög mikið,“ segir Guð­jón.

Hann segir að það felist í dómi Hæsta­réttar að Lands­réttur þurfi nú að taka af­stöðu í málinu, sem hann gerði ekki áður.

„Í dómi Hæsta­réttar fellst að Lands­réttur þarf nú að taka af­stöðu til þess hve mikla eignar­hlut­deild Heiða á í þeim eignum sem skráðar voru á Pál Magnús á dánar­degi hans. Þar er undir heimili Heiðu og vinnu­staður,“ segir hann að lokum.

Dómur Hæstaréttar er hér.