Fyrir Lands­rétti er nú rekið mál þar sem fjögur syst­kini manns, sem lést skyndi­lega árið 2019, takast á við konu mannsins til þrettán ára. Þau bjuggu saman og ráku tvö fyrir­tæki en nærri allt var skráð á hann við frá­fall hans. Þau voru ekki gift en ætluðu sér að gera það. Þá hafði verið gerð til­raun til að gera erfða­skrá en því verk­efni ekki lokið fyrir and­lát hans.

Þau áttu engin börn saman og for­eldrar mannsins eru látin þannig sam­kvæmt erfða­lögum erfa syst­kini mannsins hann, en ekki sam­búðar­kona hans til þrettán ára. Enginn erfða­réttur skapast á milli pars nema í hjú­skap sam­kvæmt lögum.

Héraðsdómur hafnaði kröfu systkinanna

Konan var tilneydd til að höfða mál til viðurkenningar á rétti sínum til að erfa sambýlismann sinn. Gerði hún kröfu um viðurkenningu á rétti hennar til helmings eigna dánarbúsins auk viðurkenningar á ábúðarrétti á jörðum sem skráðar eru á dánarbúið.

Með úrskurði sem kveðinn var upp í mars, féllst Héraðsdómur Suðurlands á kröfur hennar og viðurkenndi rétt hennar til helmings eigna dánarbúsins og ábúðarrétt að fjórum jörðum sem að þau bjuggu og ráku rekstur á.

Um er að ræða jarðirnar Hvassa­fell, Steinar 1, Leirur 1 og Leirur 2 og eru þær allar stað­settar á Suður­landi. Á einni þeirra er rekinn einn vin­sælasti veitinga­staður Suður­lands, Gamla Fjósið, auk þess sem þar er hægt að leigja sumar­hús.

Úrskurður héraðsdóms Suðurlands hefur verið kærður til Landsréttar. Von er á niðurstöðu hans í næstu viku.

Í úrskurðinum er vel farið yfir kröfu bæði sam­býlis­konu mannsins og syst­kina hans og hvernig þau eru ekki sam­mála um það hvort hún eigi til­kall til eigna í dánar­búinu þegar þær voru ekki skráðar á hana og þau hafi ekki verið byrjuð saman þegar hann keypti jarðirnar.

Gamla Fjósið er einn vinsælasti veitingastaðurinn á Suðurlandi.
Mynd/Facebook

Mikil og samhent uppbygging og niðurgreiðsla skulda

Í málatilbúnaði konunnar kemur fram að á sam­búðar­tíma hennar og hins látna hafi verið mikil upp­bygging í fyrirtækjarekstri þeirra og niður­greiðsla skulda. Þau hófu rekstur í ferða­þjónustu og veitinga­sölu. Þá hafi fjár­hagur þeirra verið al­ger­lega sam­ofinn og hvert þeirra greitt kostnað vegna heimilis­halds eftir fjár­hag hvers og þörfum.

Þau fóru í viða­miklar endur­bætur og breytingar á hús­næði á jörðunum, þar með talið Gamla fjósinu og tveimur í­búðar­hús­næðum sem eru á jörðinni.

Tekið er fram að sem dæmi hafi konan fengið styrk frá Byggða­stofnun fyrir þessum fram­kvæmdum og lán hjá for­eldrum sínum sem að hafi allt verið lagt í reksturinn þrátt fyrir að ekkert af því hafi verið skráð á hana. Þá hafi allar launa­tekjur hennar farið í reksturinn auk þess sem ein dóttir hennar, og ættingjar hennar og vinir, hafi að­stoðað við að koma rekstrinum á fót.

Þá segir hún í kröfu sinni að fjár­hags­sam­staðan og eigna­myndunin sem átti sér stað á sam­búðar­tímanum hafi leitt til þess að greiðslu­mark fyrir mjólk sem búinu var út­hlutað hafi stór­aukist. Árið 2006 hafi fylgt jörðinni 229.380 lítra greiðslu­mark en árið 2018 hafi það verið tæpir 300 þúsund lítrar.

Þá vísar hún að lokum í drög að erfða­skrá mannsins þar sem kemur fram að hann hafi viljað að hún taki arf eftir hann. Það hafi verið hans vilji að hún fengi í sinn hlut fast­eignir hans á­samt til­heyrandi lóða­réttindum auk eignar­hluta hans í Gamla fjósinu. Honum láðist þó að klára gerð erfða­skrárinnar þannig hún var ekki gild við and­lát hans.

Með vísan til alls þessa telur segir konan sannað að eigna­myndun sem til staðar sé í dánar­búi mannsins hafi orðið til á meðan þau bjuggu saman og með fram­lögum þeirra beggja. Það hafi verið sterk fjár­hags­staða sem leiddi til mikillar verð­mæta­aukningar og þess vegna eigi að viður­kenna rétt hennar til helmings af eignum dánar­búsins.

Hvað varðar rétt hennar til að búa á­fram á jörðinni vísar hún til þess að það hafi verið heimili hennar síðustu 14 ár og að hún hafi stundað þar bú­skap og annan rekstur.

Málið er nú til meðferðar í Landsrétti.

Krafan almenn og óljós

Syst­kinin vísa í sínum málatilbúnaði til fjölda dóma þar sem hefur verið komist að þeirri niður­stöðu að við slit ó­vígðrar sam­búðar taki hvor um sig þær eignir sem hann átti við upp­haf sam­búðar eða eignaðist á meðan sam­búð stóð og að ef fólk telji sig eiga rétt á ein­hverju sem ekki er skráð á það þurfi það sjálft að sanna það.

Þau segja ljóst að maðurinn eignaðist jarðirnar áður en þau hófu sam­búð og að sam­býlis­kona hans hafi ekki átt neitt í þeim eða greitt af þeim. Þau mót­mæla því að bróðir þeirra hafi talið þau eiga þetta saman og segja frá­sögn hennar ein­hliða.

Þau vísa til skatt­fram­tala þeirra sem alltaf voru talin fram í sitt­hvoru lagi og miðað við gögnin sem þar er að finna hafi þau verið sam­mála um að blanda ekki saman fjár­hag sínum.

Þau segja þau að þegar þau tóku við dánar­búinu hafi það verið skuld­sett og þau hafi þurft að byrja á því að greiða niður skuldir með því að selja tæki og vélar og semja við lán­veit­endur.

Tvö systkina mannsins hættu við

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að tvö syst­kinanna hafi snúist á sveif með konunni og greint frá því að þau hafi fylgst með upp­byggingu á bænum eftir að sam­búð þeirra hófst. Sam­býlis­kona hans hafi verið „drífandi og hug­mynda­rík“ og að þau hafi verið saman í þeim breytingum sem áttu sér stað og þau hafi verið sam­hent þótt þau hafi sinnt ó­líkum verk­efnum í rekstrinum.

Systir mannsins sagði fyrir dómi að kröfur konunnar séu „al­gjört rétt­lætis­mál“.

Konan fær helming á móti systkinunum

Það er niðurstaða héraðsdóms að syst­kinunum hafi ekki tekist að hrekja þær full­yrðingar sem hafi verið settar fram um sam­eigin­lega eigna­myndun og upp­byggingu á svæðinu á sam­búðar­tíma þeirra. Þá segir að ekki sé hægt að sjá annað en að fjár­hags­leg sam­staða hafi verið á milli þeirra og að verka­skipting hafi verið jöfn og því fellst dómurinn á að helmingur af öllum nettó eignum dánar­búsins til­heyri henni og að hún megi búa á­fram á jörðunum.

Nánar verður fjallað um málið í helgar­blaði Frétta­blaðsins á morgun. Rætt verður við sam­býlis­konu mannsins og dóttir hennar, auk þess sem rætt er við Hrefnu Frið­riks­dóttur, prófessor við laga­deild Há­skóla Ís­lands, og Vil­hjálm Þ. Á. Vil­hjálms­son, hæsta­réttar­lög­mann.