Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, var ögn þreyttur eftir kosninganóttina þegar Fréttablaðið náði af honum tali. Stíft var fylgst með enda mikið í húfi fyrir Bretland og Breta á Íslandi. Ekki voru þó neinar kosningar haldnar í sendiráðinu sjálfu því að þeir 2.000 til 3.000 Bretar sem hér eru staddir kusu með póstkosningu.

Segir hann óljóst hvort mikil spenna hafi verið fyrir kosningunum hjá Bretum hér. „Bretar á Íslandi eru margir mjög vel aðlagaðir íslensku samfélagi. Þeir eiga sitt líf og sína vini hér og reiða sig ekki mjög mikið á sendiráðið,“ segir hann.

Boris Johnson forsætisráðherra hefur lýst því yfir að Bretland muni yfirgefa Evrópusambandið 31. janúar næstkomandi. Michael segir að þegar sé til staðar samkomulag á milli Bretlands og Íslands um réttindi ríkisborgara. „Það sem mun gerast er að við förum í svokallað útfærslutímabil í eitt ár og þá verður engin breyting á stöðu þeirra,“ segir hann. „Breskir ríkisborgarar sem búið hafa hér á Íslandi fram að 31. janúar geta því haldið áfram að búa, starfa og læra hér á landi. Það sama gildir fyrir Íslendinga í Bretlandi.“

Þegar farið verður að ræða framtíðarskipulag við Evrópusambandið og EES-ríkin mun framhaldið koma í ljós. En samkomulagið um þá sem bjuggu hér til 31. janúar gildir áfram.

Aðspurður um hvort útgangan muni styrkja eða veikja samband Íslands og Bretlands telur Michael að það muni styrkjast. „Við sjáum það nú þegar vera að styrkjast, meðal annars með fundum á milli ráðherra. Það er mikilvægt fyrir Bretland að halda góðum samskiptum við nágrannaríki, til dæmis Ísland sem einnig er utan Evrópusambandsins.“