Félag grunnskólakennara hafði betur gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir Félagsdóm í máli kennara sem krafðist þess að fá greitt fyrir vinnu sem hann innti af hendi utan hefðbundins vinnutíma.
Félag grunnskólakennara sótti málið fyrir hönd kennarans, en vinnan varðaði aðstoð við smitrakningu vegna COVID-19. Kennarinn hafði gert þá kröfu að hann skyldi fá vinnuna greitt sem útkall, en skólastjóri féllst ekki á það. Það var óumdeilt að kennarinn vann vinnuna að beiðni yfirmanns.
Fyrir Félagsdóm var tekist á um hvort útkallsákvæði kjarasamnings átti að gilda um vinnu kennarans. Félagsdómur féllst ekki á að kennarinn skyldi fá vinnuna greidda sem útkall, en dómurinn taldi að það væri einungis hægt að greiða fyrir útkall ef starfsmaður þyrfti að mæta á vinnustaðinn, en kennarinn vann vinnuna heima hjá sér.
Hins vegar var fallist á að hann skyldi fá greitt fyrir vinnuna samkvæmt öðrum ákvæðum kjarasamnings. Þar að leiðandi yrði Hafnarfjarðarbær að greiða kennaranum fyrir vinnuna, enda var hann einungis í vinnusambandi við sveitarfélagið.
Samband íslenskra sveitarfélaga var því sýknað af kröfu Félags grunnskólakennara um rétt kennarans á greiðslu vegna útkalls, en dómurinn felst á að kennarinn eigi engu að síður að fá greitt fyrir vinnu sína.