Það er enginn undanskilin því að finna fyrir breytingum á samfélaginu þessa dagana og okkur lék forvitni á að vita hvernig samkomubannið leggðist í þriggja barna föðurinn Góa.

Hvað á að gera aðra helgi samkomubanns?

Það er góð spurning. Taka góðan göngutúr með fjölskyldunni. Bíltúr. Fara í heita pottinn heima hjá okkur, elda góðan mat og prófa nýjar uppskriftir. Baka. Reyna að finna eitthvað til að brjóta upp vikuna.

Hvernig eru aðstæður á heimilinu?

Við erum fimm í heimili. Þannig að það er nóg að gera sem er frábært. Við Inga konan mín erum bæði í fæðingarorlofi þannig að við erum að nýta það einstaklega vel. Við eigum þrjú börn, Óskar 11 ára, Kristínu 8 ára og svo Ara Stein sem er 5 mánaða. Við fengum leyfi hjá skólanum til að fara til Tene í afslöppun og stuð eftir að ég frumsýndi Útsendingu sem ég leikstýrði í Þjóðleikhúsinu 22. febrúar. Þannig að við fórum tveimur dögum eftir sandstorm og komum heim þremur dögum áður en allir voru sendir í sóttkví. Við fórum þess vegna bara í sjálfskipaða sóttkví uppí bústað í nokkra daga og erum búin að vera saman í einni hrúgu síðan.

Hvernig gengur að viðhalda rútínu?

Við vöknum, lærum og klárum það. Svo eru eldri börnin í píanónámi og æfa sig vel, og svo eru píanótímar í gegnum Facetime. Svo er auðvitað listinn góði sem hefur beðið of lengi: Bera á borðplötuna í eldhúsinu: Tékk, smyrja bílinn: tékk, þrífa gluggana: tékk og svo framvegis.


Hvers saknarðu helst?

Ég verð að viðurkenna að ég hef nú alltaf reynt að hvíla í núinu og njóta augnabliksins. Ég á geggjað skemmtilega fjölskyldu og okkur finnst alltaf langskemmtilegast að bralla eitthvað saman þannig að við erum að njóta okkar. En auðvitað sakna ég vina og fjölskyldu sem við getum ekki hitt. En ég vil ekki dvelja á þeim stað. Ég reyni frekar að hugsa jákvætt og njóta þess svo sérstaklega þegar við getum öll hist og notið þess að vera saman.

Við erum of sjálfhverf, það er of mikið kvart og kvein yfir því að þurfa að vera heima. Eins og það sé það versta.


Við erum of sjálfhverf, það er of mikið kvart og kvein yfir því að þurfa að vera heima. Eins og það sé það versta. Ég held að það sé jafnmikið kvartað yfir því að vera heima og yfir því að hafa of mikið að gera og geta ekki verið heima. Nú er tækifærið. Það er fólk þarna úti sem er veikt eða á ættingja sem eru veikir. Ég er heppinn að eiga fjölskyldu og geta notið samverunnar með þeim. Ég hugsa mjög oft til þeirra sem eru einir eða eiga um sárt að binda. Eru með undirliggjandi sjúkdóma og þess vegna hræddir.

Ræktum fjölskyldur okkar. Hringjum í vinina. Hlökkum til að hitta vini okkar aftur því mikið verður það gaman. Þetta kennir okkur margt hugsa ég. Til dæmis að bera virðingu fyrir þeim sem standa vaktina alltaf.


Hvað hefurðu lært um sjálfan þig/fjölskyldu þína á þessum tímum?


Hversu mikið ég dýrka þau og hversu skemmtileg þau eru.