Veðurstofan spáir suðvestan 13 til 20 metrum á sekúndu og éli í dag, hægari vindur og þurrt að kalla austanlands.

„Áfram stjórnar sama lægð veðrinu á öllu landinu, þó dálítið minni ákefð í örlítið minni vindi," segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Á morgun er spáð suðvestan 10-18 metrum á sekúndu, hvassast norðvestan til, en hægari vindur um sunnan- og suðaustanvert landið. Dálítil él sunnan- og vestanlands. Dregur enn frekar úr vindi annað kvöld, suðlæg átt 3-10 metrar á sekúndu þá. Hiti nálægt frostmarki.

Gular við­varanir eru í gildi víðs vegar um landið, á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og norðurlandi vestra og Miðhálendinu.

Búast má við slæmum akstursskilyrðum þar sem gul viðvörun er í gildi.
Fréttablaðið/Skjáskot

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Austan og suðaustan 8 til 15 metrar á sekúndu og slydda eða snjókoma með köflum sunnan til, en hægari norðlæg átt og él fyrir norðan. Snýst í vestlægari átt sunnan til með dálitlum él eftir hádegi. Frost víða 0 til 6 stig, en hiti 0 til 5 stig syðra.

Á mánudag:
Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og frost 1 til 10 stig. Vaxandi suðaustanátt síðdegis og þykknar upp, 13 til 18 metrar á sekúndu og snjókoma eða slydda suðvestanlands um kvöldið og hlýnar heldur.

Á þriðjudag:
Allhvöss eða hvöss suðaustanátt með rigningu í fyrst, síðar suðlægari með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðaustanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast á Suðausturlandi.

Á miðvikudag:
Ákveðin suðlæg átt með éljum, en norðaustanhvassviðri og snjókoma norðvestan til. Úrkomulítið norðaustan til. Kólnandi veður.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir hvassa norðanátt og snjókomu eða éljagang, en úrkomuminna sunnan heiða og talsvert frost um land allt.