„Við áttum smá spjall um þetta og komumst að því að sumir hlutir eru einfaldlega of fyndnir til að segja nei við,“ segir Steinar Logi Helgason, kórstjóri Hallgrímskirkju, en kórinn söng á ögurstundu piparsveinsins Clayton Echard hér á landi, þar sem hann var að leita að ástinni.

Lokaþættir nýjustu seríu Bachelor voru teknir upp á Íslandi í haust og sýndir í sjónvarpi í síðustu og þessari viku. Þegar kórinn hóf upp raust sína var Clayton í sárum eftir að einn keppandinn, Susie, hætti með honum. Hjartað var enn hjá Susie en lokaþættirnir urðu ótrúlega dramatískir og eftirminnilegir.

Steinar Logi.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Clayton leitaði til trúarinnar og birtist myndskeið í næstsíðasta þættinum af honum í Hallgrímskirkju þar sem hann leitaði svara við öllum sínum spurningum. Undir hljómaði lagið Vaktu minn Jesú, vaktu yfir mér, sem er texti úr Passíusálmunum, en Þorvaldur Örn Davíðsson útsetti. Steinar stýrði kórnum af festu enda mátti ekkert klikka – slík var spennan. Atriðið er þegar umtalað í Bachelor-heimum en aðdáendur þáttaraðarinnar telja milljónir um heim allan.

„Ég hafði fyrst áhyggjur af að þetta væri full dramatískt fyrir þáttinn en ég hef heyrt að mikið hafi gengið á þannig að það var kannski bara viðeigandi að við værum í sálusorgarahlutverki í kirkjunni,“ segir Steinar, en framleiðendurnir höfðu séð kórinn flytja lagið og úr varð að íslenskur Passíusálmur heyrðist í bandarísku raunveruleikasjónvarpi eins og það gerist best.

„Þetta kom upp í hendurnar á okkur, að framleiðendurnir vildu taka upp í Hallgrímskirkju og vildu hafa kór. Ég sagði nú að það yrði að bera undir hópinn,“ segir Steinar, en hann setti fram kröfuna um að íslensk tónlist myndi heyrast – svo eftir var tekið.

„Þau frá Bachelor höfðu séð myndband frá kórnum þar sem við syngjum þetta lag sem við og gerðum.

Maður veit ekki hvort maður eigi að vera stoltur eða skammast sín að koma Passíusálmunum inn í Bachelor,“ segir hann og hlær, en Steinar viðurkennir að hafa ekki séð einn einasta þátt af þáttaröðinni vinsælu sem sýnd er í Sjónvarpi Símans.

Hann bendir þó á að nokkrir Bachelor-sérfræðingar leynist í kórnum og mikill meirihluti hafi verið sammála um að taka þátt í þessu verkefni. „Þetta var ákvörðun sem við tókum í sameiningu og það var yfirgnæfandi meirihluti á því að þetta væri fyndið og skemmtilegt að fá að taka þátt í. Ég var sammála því.“

Kór Hallgrímskirkju syngur á Boðunardegi Maríu á sunnudag á tónleikum sem hefjast hálf sex og er nóg að gera. „Svo seinna í vor erum við með stóra tónleika með barokkbandinu Brák, sem er mjög spennandi verkefni.“