Salmann Tamimi, tölvunarfræðingur og forstöðumaður Félags múslima á Íslandi, er látinn 65 ára að aldri. Hann lést í gærkvöldi að því er fram kemur í tilkynningu frá félagi múslíma.

„Þessa manns verður sárt saknað,“ segir félagið og minnir fólk á að bera virðingu fyrir aðstæðum og vera ekki að angra fjölskyldu hans að óþörfu.

„Það eina sem við getum gert núna er að biðja Allah að blessa sál hans og inshallah hann verður háttsettur í paradís.“

Salmann var ættaður frá Palestínu og flutti til Íslands aðeins 16 ára gamall.

Hann var Íslendingum að góðu kunnur enda hefur hann lengi verið talsmaður múslima hér á landi sem forstöðumaður félags múslima, ímam moskunnar og trúarleiðtogi.

Hann skilur eftir sig eiginkonu, Ingibjörgu Sigurjónsdóttur Tamimi, og fimm börn, Nadiu, Maríu Björg, Nazímu Kristínu, Yousef Inga og Rakel Dögg og barnabörn.