Heilbrigðismál Ísland er eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða er kemur að stuðningi við þá sem leita þjónustu sálfræðinga. Enn hefur ekki tekist að hrinda í framkvæmd lögum frá 2020, sem kveða á um niðurgreiðslu þjónustu sálfræðinga á stofu.

Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands, segir að sálfræðimeðferð dragi úr líkum á örorku og geti komið í veg fyrir að fólk detti út af vinnumarkaði. En rúmu ári eftir löggjöf Alþingis um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu á Íslandi í lok júní 2020, sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum af þingmönnum allra þingflokka, bóli enn ekkert á fjármagni til að hrinda lögunum í framkvæmd. Þetta sé einsdæmi meðal Norðurlandanna.

Enginn vafi leiki á að ástandið stéttskipti þjóðinni eftir efnahag og rýri heilsu efnaminni, á sama tíma og efnameiri geti keypt sér sálfræðiþjónustu og fái fyrr þjónustu. Ríkisstjórnin hafi sýnt sýnt algjört áhugaleysi í því að virkja lagasetninguna með árangursríkum hætti. Um klárt kosningamál sé að ræða.

Tryggvi Guðjón Ingason, formaður Sálfræðingafélags Íslands

„Þetta úrræði, að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, snertir í raun alla – beint eða óbeint,“ segir Tryggvi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um þetta mál, að ríkisstjórnin hafi lagt upp með mikla uppbyggingu í heilbrigðismálum. Sérstök áhersla hafi verið lögð á geðheilbrigðismál. Fjárframlög til þeirra hafi aukist um rúman milljarð, búið sé að fjölga sálfræðingum í heilsugæslu úr ríflega 30 upp í 66 og geðheilbrigðisteymum hafi verið komið á í öllum heilbrigðisumdæmum.

Forsætisráðherra svarar ekki hvort hún telji dráttinn á framkvæmd laganna boðlegan, heldur bendir á að fjárframlög til heilbrigðismála hafi aukist um 46 prósent, eða 90 milljarða. Dregið hafi umtalsvert úr greiðsluþátttöku og komugjöld lækkað í heilsugæslu, tannlækningum aldraðra og öryrkja, lyfjakostnaði og hjálpartækjum, svo nokkuð sé nefnt. Hvað varði þennan einstaka samning vísi hún til heilbrigðisráðuneytis. Ekki náðist í Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Sálfræðingafélag Íslands og Öryrkjabandalag Íslands hafa á sérstakri heimasíðu, ordskulustanda.is, tekið höndum saman í baráttu um að skora á stjórnmálaflokkana og frambjóðendur þeirra í kosningum til Alþingis, að fjármagna og koma í framkvæmd fyrrnefndum lögum.