Nýlega var auglýst eftir tíu sálfræðingum til starfa í lausar stöður á Landspítalanum (LSH). Ástæðuna segir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu spítalans, vera tvíþætta, annars vegar að starfsfólk segi starfi sínu lausu og hins vegar séu átján sálfræðingar á leið í fæðingarorlof á þessu ári.

Nanna segir að almennt hafi gengið vel að ráða í störf sálfræðinga við spítalann og að heilt yfir séu þeir ánægðir í störfum sínum. Þó hafi kannanir sýnt að óánægja sé meðal sálfræðinga Landspítalans með launakjör.

Byrjunarlaun sálfræðinga á LSH eru rúmar 540 þúsund krónur, sem er samkvæmt Önnu Maríu Frímannsdóttur, framkvæmdastjóra Sálfræðingafélags Íslands, lágt miðað við fimm ára háskólanám.

„Framgangur í stofnanasamningi LSH fyrir venjulegan sálfræðing sem sinnir hefðbundnu sálfræðistarfi er hægari á LSH en hjá mörgum öðrum ríkisstofnunum,“ segir Anna María. „Hins vegar eru verkefnisstjórar/teymisstjórar hjá LSH með sömu laun eða hærri laun en sálfræðingar hjá mörgum öðrum ríkisstofnunum,“ bætir hún við.

„Gott er að hafa í huga að sálfræðingar sem vinna hjá LSH eru að vinna hjá þriðju línu stofnun og verkefnin sem þeir sinna eru flóknari, veikindi skjólstæðinga flóknari og alvarlegri og álag sem því fylgir meira. Það væri því ekki óeðlilegt að sálfræðingar sem sinna slíkri þjónustu fengju laun í samræmi við það.“

Nanna segir launaröðun gagnsæja á spítalanum, hún byggi á kjarasamningum þar sem starfsaldur, verkefni og ábyrgð ráði launum. Aðrar stofnanir hafi samninga sem geri þeim kleift að hækka laun nýrra sálfræðinga hraðar en stofnanasamningar spítalans leyfi, „auk þess að greiða gjarnan óunna yfirvinnu til að hækka grunnlaun.“

Á Landspítalanum starfa 74 sálfræðingar í sextíu stöðugildum. 27 prósent þeirra eru með tíu ára starfsaldur eða lengri. 37 prósent hafa starfað á spítalanum í fjögur til níu ár, 20 prósent í tvö til þrjú ár og 16 prósent í eitt ár eða skemur. Aðspurð um starfsmannaveltu á spítalanum segir Nanna hana að meðaltali ekki hraðari „en gengur og gerist“, þó sé veltan stundum hærri en kosið væri.

„Við höfum verið sérlega ánægð með það flotta fagfólk sem kemur til starfa til okkar en þar sem Landspítali er ekki alveg samkeppnishæfur varðandi kjör og álag í starfi, þá missum við frá okkur fólk hraðar en við myndum vilja.“