Nýju salernishúsi var komið fyrir við Esjuna í maí síðastliðnum, þrátt fyrir að ekki hafi verið sótt um leyfi til að koma húsinu fyrir fyrr en þann 8. september. Málinu var þá frestað og leyfi ekki veitt frá byggingarfulltrúa fyrr en 22. september síðastliðinn.

Í frétt á vef borgarinnar þann 18. maí er sagt frá því að salernin séu komin upp og að næstu daga verði húsið tengt við lagnir og gengið frá umhverfi þess. Mögulegt verði að opna aðstöðuna almenningi í mánuðinum á eftir, það er í júní. Áætlaður kostnaður við verkið í heild er 35-40 milljónir króna.

Í svari borgarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins um málið segir að salernin hafi ekki enn verið tekin í notkun. Salernishúsið sé staðsett á svæði sem skilgreint sé fyrir þjónustu vegna útivistar og sé sett upp í samræmi við það. „Í samráði við skipulagsfulltrúa [var] ákveðið að gera sérstakt deiliskipulag fyrir svæðið og þar er lóðin fyrir almenningssalerni sérstaklega afmörkuð. Afmörkuð lóð leiðir til þess að farin er formleg leið með byggingarleyfi og tilheyrandi úttektum,“ segir í svarinu.