Mikið hefur verið rætt um það hvort þjóðin myndi taka upp á því að fjölga sér í samkomu­banninu sem fylgdi COVID-19. Vissulega er erfitt að komast að því með haldbærum hætti hvað Íslendingar gera meðan þeir eru tilneyddir til að halda sig innandyra en þó eru til mælanlegar einingar sem gætu sýnt fram á hegðun Íslendinga í samkomubanni.

Fréttablaðið hefur óskað eftir upplýsingum frá tugum apóteka í öllum landshlutum til að athuga hvort sala á þungunarprófum hafi aukist á síðustu mánuðum með mælanlegum hætti.

Samkomubanns-börnin eru á leiðinni

Niðurstöðurnar benda til þess að samkomu­banns-börn séu á leiðinni.Akureyringum mun líklega fjölga eitthvað á næstu mánuðum en samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarapóteki jókst sala á öllum tegundum þungunarprófa um 8 prósent á tímabilinu febrúar, mars og apríl í samanburði við sama tímabil í fyrra.

Akureyringar hafa þó ekki verið jafn duglegir og íbúar í Mosfellsbæ en samkvæmt upplýsingum frá Apóteki MOS var 75 prósenta aukningu í sölu á þungunarprófum á tímabilinu febrúar til maí í samanburði við sama tímabil í fyrra.

Stefnir í fleiri Skagamenn

Skagamenn virðast hafa reynt að fjölga sér á síðustu mánuðum en 9,5 prósenta aukning varð í sölu á þungunarprófum í Apóteki Vesturlands á Akranesi á tímabilinu janúar til apríl milli ára. Apótekið hóf sölu á nýrri tegund þungunarprófs undir lok síðasta árs og ef sölutölur yfir það eru teknar með í reikninginn er söluaukningin 21 prósent.

Um 50 prósenta aukning er í sölu á þungunarprófum hjá Íslandsapóteki á Laugaveginum í Reykjavík en þar sem um tiltölulega nýtt apótek er að ræða ber að taka tölum um söluaukningu þar á milli ára með varúð að mati apóteksins.Þá jókst sala á þungunarprófum í 16 apótekum Lyfju um 4 prósent í heildina á tímabilinu 1. mars til 25. maí, borið saman við sama tímabil í fyrra.

„Þessi aukning á milli 2019 og 2020 er töluverð,“

Við fyrstu sýn virðist 4 prósent ekki há tala. En á sama tímabili milli áranna 2018 og 2019 varð einungis 0,1 prósents aukning í sölu á þungunarprófum.„Þannig að þessi aukning á milli 2019 og 2020 er töluverð,“ segir Sigfríð Eik Arnardóttir, sviðsstjóri Vöru-, birgða- og framleiðslusviðs hjá Lyfju, en Lyfja rekur apótek í Hafnarfirði, Akureyri, Borgarnesi, Egilsstöðum, Ísafirði, Neskaupstað, Húsavík, Reykjanesbæ, Sauðárkróki og á höfuðborgarsvæðinu.

Þá hefur ekki verið mælanleg aukning í sölu á þungunarprófum hjá Lyfjum og heilsu, sem einnig rekur Apótekarann, á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þar er hins vegar um 27 útibú að ræða og var ekki hægt að fá upplýsingar um einstök apótek.