Sala nýrra fólks­bíla hefur aukist um 79,6 prósent frá því í apríl í fyrra, þá höfðu selst 2.870 nýir fólks­bílar en nú hafa selst 4.619 nýir fólks­bílar það sem af er ári. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Bíl­greina­sam­bandinu.

Það sem af er árinu hafa 2.111 nýir fólks­bílar selst til ein­stak­linga, saman­borið við 1.639 í fyrra. Þetta þýðir aukning í sölu upp á 29 prósent á þessu ári.

Það er greini­legt að bíla­sölur séu von­góðar um komur ferða­manna til landsins en í apríl keyptu bíla­leigur 814 nýja fólks­bíla, saman­borið við 259 í apríl í fyrra, það er 215 prósentu hækkun í sölu.

Ný­orku­bílar, bílar sem ganga fyrir raf­magni eða metan, eru rétt rúm­lega 62 prósent allra seldra fólks­bíla á árinu. Þetta hlut­fall var 49 prósent á sama tíma í fyrra svo það hefur verið aukning í á­huga á ný­orku­bílum.

Hybrid bílar standa nánast í stað sé sama tíma­bil skoðað á milli ára en það sem af er ári er 17,4% af heildar­sölu nýrra fólks­bíla til saman­burðar við 16,38% árið 2021.

Mest selda fólks­bíla­tegundin það sem af er árinu 2022 er Toyota með 786 selda fólks­bíla en þar á eftir kemur Hyundai með 478 selda fólks­bíla og þriðja sölu­hæsta fólks­bíla­tegundin það sem af er ári er Kia með 468 selda fólks­bíla.