Ljóst er að mikill samdráttur er á milli ára sem rekja má til heimsfaraldurs COVID-19. Fyrst og fremst eru áhrifin á ferðaþjónustuna en mun færri bílaleigubílar hafa verið nýskráðir á fyrri helmingi ársins í ár miðað við sama tímabil síðasta árs. Hafa 873 nýir bílaleigubílar verið skráðir núna á fyrstu sex mánuðum þessa árs en voru 3659 á sama tíma í fyrra, sem gerir 76,1% samdrátt á milli ára. Aðra sögu er hins vegar að segja af einstaklingum og almennum fyrirtækjum því til þeirra hafa selst 3285 nýir fólksbílar það sem af er ári og er það samdráttur upp á 8,2% miðað við sama tíma í fyrra. Hlutfall orkugjafa er að breytast töluvert milli ára og hefur selst mest af rafmagnsbílum eða 1069 það sem af er ári. Hlutfall nýorkubíla (tengiltvinn, rafmagns, hybrid og metan) er 57% af allri sölu nýrra fólksbíla á árinu samanborið við tæplega 23% í fyrra. Einnig hefur markaðurinn með notaða bíla haldið sér ágætlega á árinu en eftir að hafa gefið örlítið eftir í mars og apríl þá var maí mjög góður og á pari við maí í fyrra hvað varðar fjölda eigendaog umráðamannaskipta. Mest selda tegundin það sem af er ári er Toyota með 550 bíla (13,1% hlutdeild), en þar á eftir kemur Tesla með 465 bíla (11,1%) og svo Kia með 329 bíla (7,8%).