Sala nýrra fólksbíla í nóvember jókst um 34,5 prósent miðað við sama mánuð í fyrra, að því er nýjar tölur Bílgreinasambandsins sýna, en alls voru skráðir 1.295 nýir fólksbílar í mánuðinum en voru 963 á síðasta ári.

Þessar tölur eru í nokkru samræmi við sölu nýrra bíla það sem af er árinu í ár, en eftir fyrstu ellefu mánuði ársins hefur salan aukist um 31,5 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Í ár hafa selst 15.168 nýir fólksbílar samanborið við 11.531 nýjan fólskbíl í fyrra.

Það sem af er ári hafa selst 6.068 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra á sama tíma var búið að selja 5.438 nýja fólksbíla, sem er vel ríflega ellefu prósenta aukning.

Hlutfall rafmagnsbíla er hæst þegar heildarsalan eftir orkugjöfum er skoðuð, eða ríflega 30 prósent. Tengiltvinnbílar koma þar á eftir með rösk 23 prósent af sölunni, sala hybrid-bíla er 18,5 prósent, en hlutfall dísil- og bensínbíla er komið niður í 15 og ríf 12 prósent.