Í nýliðnum ágúst voru 904 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi, þar af 207 af merkjum BL, eða um 23%. Það sem af er ári er markaðshlutdeild BL um 28% og hefur hún haldist óbreytt frá sama tímabili 2018. Fyrstu átta mánuði ársins voru alls 10.072 fólks- og sendibílar nýskráðir, 38,7% færri en á sama tímabili 2018 þegar þeir voru 16.428 og hefur hlutfallstala BL á markaðnum haldist nær óbreytt á tímabilinu.

80 vistvænir frá BL

Af merkjum BL í ágúst var Hyundai með flestar nýskráningar, alls 62. Næstur var Nissan með 31 og síðan Renault með 29. Fast á hæla hans var Dacia með alls 25 skráningar. Nýskráningar vistmildra fólksbíla frá BL voru 80 í ágústmánuði, 63 hreinir rafbílar og 17 tengiltvinnbílar. Flestir rafbílanna voru af gerðinni Kona og Ioniq frá Hyundai með alls 42 nýskráningar, næstur kom Nissan Leaf með 12 skráningar. Af tengiltvinnbílunum sautján voru flestir frá Land Rover, eða 12. Af lúxusbílum BL voru 48 nýskráðir í ágúst, nítján frá Land Rover, tólf BMW og jafn margir Jaguar, þar af fimm hreinir rafbílar af gerðinni I-Pace.

32,4% færri bílaleigubílar nýskráðir

Í ágúst voru 224 bílaleigubílar nýskráðir, 9% færri en í sama mánuði 2018, en rúmum 32% færri sé litið til fyrstu átta mánaða ársins samanborið við sama tímabil fyrra árs. Á síðasta ári voru alls 7.039 bílaleigubílar nýskráðir hér á landi. Það sem af er þessu ári hafa 4.432 bílaleigubílar verið nýskráðir, en þeir voru 6.561 á sama tímabili 2018, 2.129 fleiri en í ár.