Kalifornía varð í gær fyrsta fylki Bandaríkjanna til að banna framleiðslu og sölu á loðfeldum. Gavin Newsom fylkisstjóri undirritaði lagafrumvarpið í gær en lögin munu þó ekki taka gildi fyrr en árið 2023 til að gefa fyrirtækjum tíma til að aðlagast.

Ýmis dýraverndarsamtök, sem hafa barist fyrir slíkum bönnum, hafa lýst yfir mikilli ánægju með ákvörðunina. „Kalifornía er og mun vera leiðandi í baráttunni fyrir velferð dýra og í dag verður stórt skref tekið í þeirri baráttu; að banna sölu á loðfeldum,“ sagði Newsom í yfirlýsingu í gær.

Bannið nær þó ekki til leðurfatnaðar, kýrhúðar eða heilla skinna af dádýrum, kindum og geitum og heldur ekki til sölu á uppstoppuðum dýrum. Fylkisstjórinn undirritaði þá einnig lög sem banna notkun á flestum dýrum í sirkus og öðrum slíkum sýningum. Það bann nær þó ekki til katta, hunda og hesta.

Þeir sem verða fundnir sekir um að brjóta nýju lögin eiga yfir höfði sér sekt upp á 500 dollara, eða rúmar 60 þúsund íslenskar krónur. Þeir sem fremja endurtekin brot fá svo tvöfalda sekt.

Segir bannið samsæri Veganista

Bannið hefur verið fordæmt af talsmanni samtaka loðfeldargerðarmanna í Bandaríkjunum, Keith Kaplan. Hann sagði bannið hluta af „róttækri veganstefnuskrá“ yfirvalda í fylkinu og að það væri aðeins það fyrsta af mörgum fyrirhuguðum bönnum á því sem almenningur ætti að mega klæðast og láta ofan í sig.

Notkun loðfelda hefur verið nokkuð umdeild í tískuheiminum upp á síðkastið en tískuhönnuðurinn Prada lofaði því þá fyrr á árinu að hætta allri notkun á alvöru loðfeldi frá og með næstu vorlínu sinni.