Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, krefst sýknu yfir öllum dómfelldu í málunum sem endurupptökunefnd mælti með að fengju endurupptöku fyrir Hæstarétti.  Þetta kemur fram í greinargerð sem skilað var til Hæstaréttar í dag. Er einnig farið fram á að málsvarnarlaun skipaðra verjenda verði greidd úr ríkissjóði.

Fallist var á endurupptökubeiðni allra dómfelldu í febrúar á síðasta ári að frátalinni beiðni Erlu Bolladóttur sem var þar hafnað. Voru þau öll sex dæmd til fangelsisvistar í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Dómarnir yfir þeim voru frá einu ári og upp í átján, en Hæstiréttur dæmdi í málinu árið 1980. Sævar og Tryggvi Rúnar eru nú látnir en farið hefur verið fram á endurupptöku málsins í langan tíma.

Segir í niðurstöðu endurupptökunefndar, varðandi bæði Guðmundar- og Geirfinnsmál, að nýju ljósi hafi verið varpað á mörg atriði í sönnunarmati í þeim þætti er varðaði aðild hinna dæmdu. 

Endurupptökunefnd metur svo að í mörgum atriðum hafi vantað upp á að hinir dæmdu hafi notið vafa sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn í málinu hafi verið rangt metin. Það hafi haft áhrif á niðurstöðu í málinu.

Guðmundur og Geirfinnur Einarssynir hurfu með nokkurra mánaða millibili árið 1974. Hvorugt lík þeirra hefur nokkurn tímann fundist. Það hefur enn fremur aldrei fengist staðfest með hvaða hætti dauða þeirra á að hafa borið með. Sexmenningarnir voru dæmdir í Hæstarétti árið 1980. Erla var dæmd fyrir rangar sakargiftir, auk Sævars og Kristjáns Viðars. Hún hlaut þriggja ára dóm. Endurupptökunefnd féllst ekki á beiðni um að meinsærisþáttur málsins yrði tekinn upp að nýju.

Tryggvi hlaut þrettán ára dóm fyrir að hafa banað Guðmundi en Kristján Viðar var dæmdur fyrir að hafa banað Geirfinni og hlaut fyrir það sextán ára dóm. Albert Klahn fékk síðan tólf mánaða dóm en Guðjón fyrir að bana Geirfinni og hlaut fyrir það tíu ára dóm.

Sævar var ákærður fyrir aðild í báðum málum og var dæmdur í sautján ára fangelsi fyrir að hafa banað báðum mönnum.