Hæsti­réttur Banda­ríkjanna úr­skurðaði í dag að Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, þarf að af­henda sak­sóknara New York-ríkis skatt­skýrslur síðustu ára á­samt öðrum fjár­hags­legum upp­lýsingum, vegna rann­sóknar sak­sóknara­em­bættisins.

Em­bættið hefur verið að rann­saka hvort greiðslur fyrr­verandi lög­manns Trump, Micheal Cohen, til klám­mynda­leik­konunnar Stormy Dani­els og fyrir­sætunnar Karen McDougal hafi verið brot á lögum um fjár­mögnun kosninga­bar­áttu.

Trump hefur í­trekað neitað að af­henda yfir­völdum gögnin en hann er eini for­seta­fram­bjóðandi Bandaríkjanna á síðustu árum sem hefur ekki opin­berað fjár­mál sín fyrir kosningar.

Sjö af níu dómurum réttarins voru sam­mála því að Trump ætti að af­henda gögnin en for­seti Hæsta­réttar, John G. Roberts, skrifaði meiri­hluta­á­litið. Dómararnir Neil Gor­such og Brett Kavan­augh, sem Trump skipaði í Hæsta­rétt, voru báðir í meiri­hlutanum.

Forsetinn er ekki hafinn yfir lög

„Enginn þegn, ekki einu sinni for­setinn, er hafinn yfir þá al­mennu skyldu að af­henda gögn, ef þess er óskað í saka­máli,“ skrifar Roberts í meirihluta­á­litinu.

Sak­sóknara­em­bættið mun síðar koma gögnunum fyrir á­kæru­kvið­dóm (e. Grand jury) þar sem tekin verður á­kvörðun um hvort á­kæra verður gefin út eða ekki. Allt það ferli fyrir luktum dyrum og undir mikilli leynd, samkvæmt reglum um ákærukviðdóma. Því er líklegt að al­menningur ekki fá að sjá skatt­skýrslur eða gögn um fjár­hag Trump fyrir for­seta­kosningarnar í haust. Þá er einnig líklegt að upplýsingarnar verða aldrei gerðar opinberar.

Demó­kratar í full­trúa­deild Banda­ríkja­þings höfðu einnig óskað eftir skatt­skýrslum Trump en meiri­hluti Hæsti­réttar vísaði málinu aftur til lægra dóm­stigs til frekari um­fjöllunar.

Roberts skrifaði einnig álit meirihlutans í því máli en þar segir hann að lægri dóm­stólinn hafi ekki tekið r þýðingar­mikil at­riði er varða skiptingu ríkis­valds til nægilegrar umfjöllunar.

Mun það lík­legast valda því að upp­lýsingar um fjar­hag Trump verða ekki að­gengi­legar fyrir for­seta­kosningarnar í nóvember.