Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri kallaði eftir aukni innra eftirliti með lögreglunni um allt land á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun. Þá kallaði hún einnig eftir samfélagslegu átaki til að taka á hversdagslegum fordómum og sagði lögregluna ekki bera eina ábyrgð og lagði til að þingið tæki forystu í þessu máli.
Tilefni fundarins var fræðsla og menntun lögreglumanna um fordóma og fjölmenningu en þingkona Pírata kallaði til fundarins eftir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit lögreglunnar stöðvuðu í tvígang ungan svartan dreng í leit sinni að strokufanganum Gabríel Duane Boama fyrir um mánuði síðan.
Viðbrögð lögreglunnar við þessum atvikum voru ítarlega rædd og sagði Sigríður Björk að hún sæi ekki endilega hvernig lögreglan hefði getað brugðist öðruvísi við ábendingum almennings.
„Við getum ekki valið að fylgja þeim eftir,“ sagði Sigríður Björk og ítrekaði að hún harmi þetta atvik.
Hún sagði misskilning að sérsveitin hefði ruðst inn í strætó og sagði að þeir hafi ekki rætt við hann heldur farið úr strætónum um leið og þeir sáu að ekki var um Gabríel að ræða. Sigríður sagði sérsveitarmenn sérþjálfaða í slíkum atvikum og hafi strax séð að ekki væri um að ræða manninn sem væri leitað að. Hún sagði samt margt hægt að gera betur og nefndi til dæmis hvernig er lýst eftir fólki og hvort það þurfi að setja einhver varnaðarorð við slíkar auglýsingar.
„Við erum búin að heyra sjónarmið sem við áttuðum ekki aftur á,“ sagði Sigríður Björk og að það væri raunverulega óþolandi að saklaust ungmenni hefði í tvígang lent í þessu.

Ekki alltaf brugðist við öllum ábendingum
Arndís Anna spurði Sigríði um þær ábendingar sem þau fá og dró það í efa að það væri brugðist við þeim öllum. Hún spurði hvert verklagið er til að fylgja eftir ábendingum og hvaða upplýsingar er beðið um þegar sérsveitin er send og spurði einnig um verklag þegar um er að ræða afskipti af börnum og þá sérstaklega um börn af erlendum uppruna.
Sigríður Björk svaraði þessu og sagði það rétt að það væri ekki alltaf stokkið á allar ábendingar en að í þessu tilfelli hafi lögreglan ekki getað sleppt því að bregðast við vegna sögu mannsins sem leitað var að um ofbeldi og vopnaburð en þess vegna var sérsveitin send því hún fer í útköll þar sem leitað er að vopnuðum manni.
„Við sendum ekki óvopnaða lögreglumenn í vopnuð útköll,“ sagði Sigríður Björk.
Sigríður Björk sagði fræðslu lykilatriði og að þau sjái það þegar þau beini sérstaklega sjónum sínum að málefnum að þá verður þeirra þjónusta betri.
Á fundinum voru auk Sigríðar Bjarkar til andsvara frá lögreglunni þeir Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, og Helgi Valberg Jensson aðallögfræðingur stofnunarinnar.
Við sendum ekki óvopnaða lögreglumenn í vopnuð útköll
„Saklaust ungmenni varð fyrir ítrekuðu og tilefnislausu ofbeldi,“ sagði Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, sem opnaði fundinn. Hún benti á að ungi maðurinn sem var í tvígang stöðvaður átti húðlit og hárgreiðslu sameiginlega með manninum, en ekkert annað, og að fleiri innan stórs jaðarsetts hóps ættu það sameiginlegt.
Arndís Anna spurði um kynþáttamiðaða löggæslu [e. Racial profiling] innan bæði lögreglunnar og sérsveitar, endurmenntun lögreglunnar auk þess sem hún spurði um hvernig reglur væru um merki sem lögreglan ber, en fjallað var um það á fundi Alþingis árið 2020 eftir að lögreglukona bar merki sem þótti rasískt. Eftir að málið kom upp voru rasísk merki og húðflúr gerð óheimil.
Vilja heyra í almenningi og þjónustuþegum
Sigríður Björk sagði lögregluna þjónustustofnun og að það ætti að þjónusta fólkið eins og fólkið vill og að til þess að það sé hægt verði þau að hlusta á fólkið og í nýrri stefnu væri þeirra markmið að vinna eftir virðingu og að hlusta á þjónustuþega. Hún og Ólafur Örn fóru ítarlega fyrir fjölmörg verkefni sem lögreglan vinnur að til að sinna endurmenntun og fræðslu. Þau nefndu sem dæmi samtarf við Samtökin ´78, Geðhjálp, Fjölmenningarsetur, Rauða krossinn og við Umboðsmann barna.
Þau töluðu um bæði jafningjafræðslu og að yfirmenn séu þjálfaðir til að miðla þekkingu áfram til undirmanna. Haustið 2020 var búið til kennaranámskeið á vegum ÖSE. Sautján lögreglumenn fengu ítarlega þjálfun um rannsókn hatursglæpa og hvernig þau geti miðlað þekkingunni áfram.
„Markmiðið er að allir starfandi lögreglumenn í framtíðinni geti borið kennsl á hatursglæp,“ sagði Sigríður en að það væru ekki bara lögreglumenn starfandi hjá þeim heldur líka starfsfólk á ákærusviði og að í fyrra hafi verið haldinn sameiginlegu fundur fyrir alla.
Þá sagði Sigríður að unnið væri að því að gera fag um fordóma og fjölmenningu að skyldufagi í lögreglufræðunum.
„Við erum að vinna markvisst í þessum málum“ sagði Sigríður og að þau væru líka að vinna með til dæmis hinsegin fólki og að það væri mikilvægt að fá skoðun þeirra sem námsefnið fjallar um á því og hvort að það virki.
Markmiðið er að allir starfandi lögreglumenn í framtíðinni geti borið kennsl á hatursglæp
Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði sterkar vísbendingar um hversdagslega fordóma í samfélaginu og að það væri mikil meinsemd. Hún spurði um lögreglumenn af erlendum uppruna og hvort að það væri sérstaklega unnið að því að fjölga þeim. Hún benti á að fólk af erlendum uppruna er fimmtungur samfélagsins og spurði til dæmis hverjar kröfurnar eru um íslenskukunnáttu.
Sigríður Björk sagðist sammála að hversdagslegir fordómar séu meinsemd en að lögreglan geti ekki unnið ein að því að uppræta það. Hún segist vilja sjá þingnefnd og þingið taka forystu í þessu máli.

Íslenskur ríkisborgararéttur inntökuskilyrði
Ólafur Örn sagði að eitt skilyrða inntöku væri íslenskur ríkisborgararéttur og að það gæti verið ein ástæða fyrir því að þeim hafi ekki farið fjölgandi í náminu. Hann sagði það staðlað á Norðurlöndum en að, til dæmis, í Bretlandi hefði slík krafa verið afnumin til að fjölga umsóknum fólks af erlendum uppruna.
Á fundinum var einnig farið yfir það hvað er gert ef einhver tilvik koma upp meðal lögreglumanna um hversdagslega fordóma þá sé bæði hægt að veita þeim áminningu en svo sé nefnd um störf lögreglunnar og siðareglur þar sem tekið er á þessu.