Matthías Jón Karlsson og Vygantas Visinskis hafa verið sakfelldir fyrir stórfellda fíkniefnaframleiðslu. Matthías Jón var dæmdur í fangelsi í fimm ár og níu mánuði en Vygantas fékk fjögurra ára dóm.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Ákæruvaldið hafði farið fram á átta ára fangelsi yfir þeim en þeir játuðu brot sín að hluta fyrir dómi.

Mennirnir tveir voru dæmdir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að framleiðslu og haft í vörslum sínum rúm 11 kíló og 3,3 millilítra af amfetamín í sölu- og dreifingarskyni.

Framleiðslan átti sér stað í íbúð að Grýtubakka 6 í Reykjavík en þar fann lögregla alls konar muni sem notaðir voru til framleiðslu, þar á meðal mælikönnur, öndunargrímur, loftæmingarvél, vinnugalla og hanska.

Matthías Jón var í fyrra dæmdur fyrir aðild hans að Bitcoin-málinu svokallaða, en hann fékk næstþyngsta dóminn, eða tveggja og hálfs árs fangelsi. Það mál bíður áfrýjunnar og verður tekið fyrir í Landsrétti eftir áramót."