Karlmaður á þrítugsaldri sem er grunaður um að hafa stungið mann í kviðinn í miðbænum síðustu helgi verður áfram í gæsluvarðhaldi til 25. júní. Þetta var úrskurðað í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Hnífaárásin átti sér stað á öðrum tímanum aðfaranótt sunnudags fyrir framan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg. Maðurinn sem var stunginn er á batavegi en honum var haldið sofandi í nokkra daga eftir að hann var lagður inn á bráðadeild Landspítalans.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málsins miða vel. Aðspurður hvort maðurinn í gæsluvarðhaldi hafi réttarstöðu sakbornings svarar Gunnar játandi.