Fjór­menningarnir sem á­kærðir eru fyrir skipu­lagða brota­starf­semi og til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots ýmist neituðu sök í málinu eða neituðu að taka af­stöðu til málsins.

Mál þeirra var þing­fest í Héraðs­dóm Reykja­víkur í morgun. En aðalmeðferð málsins fer fram í byrjun janúar 2023.

Þeir á­kærðu mættu í gegnum fjar­fundar­búnað en þeim er gefið að sök að hafa reynt að flytja inn tæp­lega 100 kíló að kókaíni sem falið var í vöru­sendingu á leið til landsins, á­samt peninga­þvætti. Markaðs­virði kókaínsins er talið hafa verið um tveir milljarðar króna.

Eins og fyrr segir eru fjór­menningarnir, Páll Jóns­son, Daði Björns­son, Jóhannes Páll Durr og Birgir Hall­dórs­son á­kærðir fyrir peninga­þvætti og inn­flutning á kókaíni. Páll, Daði og Jóhannes neituðu allir sök á inn­flutningi á kókaíni en Birgir tók ekki af­stöðu til málsins og óskaði eftir frest til að tjá sig um á­kæruna. Þá neituðu Páll, Daði og Jóhannes sök á peninga­þvætti.

Fjór­menningunum er gefið að sök að hafa flutt inn 100 kíló af kókaíni sem falin voru í sjö trjá­drumbum sem sendir voru til landsins. Efnunum var fyrst komið fyrir í timbrinu í Brasilíu en þaðan var timbrið sent til Hollands.

Tollurinn skipti kókaíni út fyrir gervi­efni

Lög­reglan hér­lendis rann­sakaði skipu­lagða brota­starf­semi hér­lendis og komst á snoðir um smyglið og til­kynnti það til tollsins í Hollandi, en þar var kókaíninu skipt út fyrir gervi­efni og síðan á­fram­sent til Ís­lands.

Rann­sókn málsins stóð yfir í haust en að henni komu em­bætti lög­reglu á höfuð­borgar­svæðinu, á Suður­nesjum, ríkis­lög­reglu­stjóra og héraðs­sak­sóknara. Sömu­leiðis vann lög­reglan með toll­yfir­völdum í Hollandi, þaðan sem sendingin kom.

Einnig á­kærðir fyrir fíkni­efna­laga­brot

Jóhannes Páll Durr var einnig ákærður fyrir fíkni­efna­laga­brot en hann á að hafa haft haft í vörslum sinum 5,24 grömm af marijúana og 38,25 grömm af MDMA, sem lög­regla fann við leit á heimili hans. Jóhannes játaði sök með fyrir­vara um magnið.

Þá var Daði einnig ákærður fyrir fíkni­efna­laga­brot. En hann var tvisvar sinnum gripinn með sam­tals um 43 grömm af marijúana. Þá var hann einnig með 995 grömm að kanna­bis­laufum, 265 grömm af kanna­bis­plöntum og 25 kanna­bis­plöntur á heimili sínum. Daði játaði sök með fyrir­vara um fram­setningu magns.