Þrátt fyrir að hafa verið dáinn í rúm sex ár heldur Muammar Gaddafi ofursti, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, áfram að hafa áhrif á heimsmálin. Í gær var Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands frá 2007 til 2012, færður á lögreglustöð í Nanterre, úthverfi í vesturhluta Parísar. Þar yfirheyrði lögregla hann um meinta fjármögnun Gaddafis á forsetaframboði hans árið 2007.

Sarkozy hefur áður verið yfirheyrður vegna málsins og neitað sök. Rannsókn á málinu hófst árið 2013. Heimildir BBC hermdu að Brice Hortefeux, innanríkisráðherra í ríkisstjórn Sarkozy, hafi einnig verið yfirheyrður í gær.

Alexandre Djouhri, fyrrverandi aðstoðarmaður Sarkozy, er grunaður um peningaþvætti í tengslum við málið. Hann berst gegn því að verða framseldur frá Lundúnum. Djouhri neitar sök en í febrúar greindi Reuters frá því að hann teldi ásakanirnar pólitísks eðlis.

Undir þann málflutning hefur Sarkozy sjálfur tekið. Forsetinn fyrrverandi hefur sagt að ásakanirnar séu runnar undan rifjum hefnigjarnra Líbíumanna sem vilji ná sér niður á Sarkozy fyrir þátttöku Frakka í hernaðaraðgerðum undir stjórn Bandaríkjahers sem leiddu til falls Gaddafis, kostuðu hann raunar lífið.

Þegar Sarkozy var spurður út í málið á meðan forval franskra Repúblikana stóð yfir í nóvember 2016 sagði hann spurninguna blaðamanninum til skammar. Ziad Takieddine, sem sagði frá málinu, væri þekktur lygari sem hafi oftsinnis verið sakfelldur fyrir meiðyrði.

Sarkozy hefur þó ekki verið ákærður. Í gær var hann einungis færður í varðhald. Samkvæmt AFP var þetta í fyrsta skipti sem lögregla setur Sarkozy í varðhald vegna þessa máls en hann var einnig í varðhaldi árið 2014 í tengslum við aðra rannsókn á meintum brotum á lögum um fjármögnun framboða.

Saksóknarar hafa farið fram á að Sarkozy verði dreginn fyrir dóm vegna hins málsins, kennt við almannatengslafyrirtækið Bygmalion. Hafa þeir sagt að flokkur Sarkozy, Lýðveldisflokkurinn, hafi látið falsa reikninga svo hægt væri að verja meiru í kosningabaráttu.