Norskur karlmaður á fimmtugsaldri er í haldi lögreglu, sakaður um að hafa brotið gegn 263 börnum á netinu. Þetta er annað kynferðisbrotamálið gegn börnum sem kemur upp í Akerhus-fylki í Noregi á skömmum tíma. 

Einungis fáeinar vikur eru frá því að 26 ára karlmaður var ákærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn nær þrjú hundruð drengjum í gegnum snjallforritið Snapchat.

Hinum fyrrnefnda er gefið að sök að hafa brotið kynferðislega gegn 263 börnum á aldrinum níu til sextán ára í gegnum spjallforritin Skype og Omegle. Samkvæmt heimildum norska dagblaðsins Verden gang búa langflest barnanna í Noregi, eða 220, en restin eru búsett í öðrum nágrannaríkjum Noregs.

Laug að hann væri ung stúlka

Flest fórnarlambanna eru drengir sem maðurinn hafði samband við í gegnum umrædd snjallforrit. „Drengirnir héldu að þeir væru að tala við stúlku sem væri einu eða tveimur árum eldri. Hinum ákærða tókst vel að tileinka sér tungumál ungmenna,“ hefur VG eftir Anette Holt Tønsberg, einum af þeim lögmönnum sem koma að málinu.

Maðurinn er sagður hafa hvatt börnin til að senda sér nektarmyndir eða fækka fötum fyrir framan myndavél. Samkvæmt norska ríkisútvarpinu NRK komst upp um málið þegar móðir tíu ára gamals drengs heyrði rödd stúlku berast úr herbergi sonar hennar síðla kvölds. 

Myndavél „Stínu“ brotin

„Ég fór inn og sá að hann var í myndsímtali í símanum sínum,” hefur NRK eftir móður drengsins. Sagði hún son sinn í kjölfarið hafa tjáð sér að hann væri að ræða við Stínu, fimmtán, sextán ára stúlku. Hins vegar væri myndavélin hennar brotin þannig aðeins sonur hennar var í mynd.

Stór hluti samtalsins snerist um kynlíf og hafði drengurinn sent nokkrar nektarmyndir af sér til „Stínu“ og fengið jákvæð viðbrögð til baka. Móðirin hafði í kjölfarið samband við lögreglu.

„Ég var reið, áhyggjufull hvert myndirnar fóru og óviss hver hin manneskjan var. Börn eru auðblekkt og mig grunaði að það væri engin unglingsstúlka sem hann væri í samskiptum við,“ sagði móðirin. 

Maðurinn hefur verið í haldi lögreglu frá því í janúar 2018. Hann hefur játað sök og kveðst hafa leitað sér hjálpar.  

„Hann er feginn að hafa verið handtekinn því hann vildi losna undan þessu. Hann hefur leitað sér hjálpar í fangelsinu,“ er haft eftir lögmanni mannsins, Gard A. Lier.