Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi þingmaður, sem sat í svokallaðri sáttanefnd sem Jón Bjarnason ráðherra skipaði, segir að sá arður sem skapist af fiskveiðum þurfi að skiptast með skynsamlegum hætti á milli eiganda auðlindarinnar og þeirra sem fá að nýta hana. Veiðigjöld þurfi að vera sveigjanlegri.

Svanfríður minnir á að sáttanefndin hafi á öðrum áratug þessarar aldar gert tillögu að tímabundnum samningi við hvert fyrirtæki um nýtingu auðlindarinnar. Útvegsmenn hafi á þeim tíma verið tilbúnir að fallast á þá niðurstöðu en pólitíkin ekki fylgt málinu eftir.

Svandís Svavarsdóttir matvæla­ráðherra var spurð á Fréttavaktinni á Hringbraut hvort sama árangursleysi væri viðbúið nú þegar tæplega 50 manns munu starfa í nokkrum hópum að breytingum á sjávarútvegskerfinu. Hún svaraði að þrátt fyrir ítök og hagsmuni hefði hún trú á að ný vinnubrögð í þessum efnum yrðu til bóta, ekki síst þar sem gegnsæi myndi einkenna störf hópanna.

Þau sem stýra hópunum fjórum, sem munu aðstoða ráðherra í vinnunni fram undan, eru Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellexon, formaður samfélagshópsins. Eggert Benedikt Guðmundsson, verkfræðingur er formaður aðgengishóps. Umgengnishópi stýrir Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures. Tækifærishópi stýrir Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri Jarðvarma. Vinnunni á að ljúka fyrir árslok 2023.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir að almenningur hafi horft upp á óréttlæti í sjávarútvegi áratug eftir áratug. Hún segir skref Svandísar góðra gjalda verð, ráðherrann hafi kallað til sómafólk í starfshópana og tilgangurinn sé göfugur. Vandamálið sé að niðurstaðan velti á vilja þingsins. Þar sé við ramman reip að draga.

„Ég er hrædd um að þetta sé yfirvarp fyrir VG til að halda áfram í ríkisstjórninni,“ segir Þorgerður Katrín.

Hún hvetur Svandísi til að taka það skref með Framsóknarflokknum að storka Sjálfstæðisflokknum sem hafi tögl og hagldir í sjávarútvegi og vilji óbreytt ástand. Veiðigjöldin séu allt of lág. Heildarfjárhæð veiðigjalda var árið 2028 tæpir 4,8 milljarðar en sú fjárhæð slagar vart upp í helming þess stjórnsýslukostnaðar sem hlýst af því að starfrækja fiskveiðikerfið, að sögn Þorgerðar Katrínar.

„Þetta eru hlægilegar fjárhæðir þegar við skoðum kostnað við þjónustu sem ríkið veitir fyrir útgerðina,“ segir Þorgerður Katrín.

Ofurgróði útgerðarinnar þessa dagana, sem Fréttablaðið hefur fjallað um, leiðir enn til vaxandi þrýstings á breytingar á kerfinu, að sögn Þorgerðar Katrínar. Hún segist þó samfagna fyrirtækjum þegar gengur vel en það skipti máli hvernig auður verður til, hvort um sameiginlega auðlind sé að ræða eða ekki. Kerfið sé gott í grunninn en það eigi eftir að klára þátt þjóðarinnar í hlutdeildinni.

„Þetta er óréttlæti og það verður ekki lengur við það unað.“

Þorgerður Katrín væntir lítils af vinnu starfshópa Svandísar Svavarsdóttur.