Litlar og óætar máltíðir eru meðal þess sem ólánsamir Ólympíu-íþróttamenn hafa þurft að upplifa, smitist þeir af kórónaveirunni á Ólympíuleikunum í Peking. Þátttakendur á leikunum hafa nú hafið að tjá sig opinberlega um aðstæður keppenda sem þeir segja óboðlegar, og segja aðbúnað smitaðra gera slæmt ástand mun verra.

Farsóttarhótel á Ólympíuleikunum í Peking hafa sætt harðri gagnrýni keppenda og aðstandenda þeirra á Vetrarólympíuleikunum sem fara nú fram. Þá hafa smitaðir íþróttamenn verið settir í sóttkví á hótel sem keppnislið þeirra hafa ekki aðgang að, á meðan aðrir keppendur hafa fengið að einangra sig innan Ólympíuþorpsins.

Maturinn er sagður óboðlegur, en hann ku vera sérmerktur þeim sem eru keppendur, til að starfsfólk geti aðgreint matinn frá máltíðum annarra Ólympíufara.

Valeria Vasnetsova, fulltrúi Rússa í gönguskotfimi, sagðist í samtali við Time hafa verið sárhungruð í sóttkvínni og hafa grátið á hverjum degi undan matnum, sem hún sagði óætan og næringarsnauðan.

Vasetsnova hélt því fram að keppendur fengju síðri mat, og því til stuðnings reiddi hún fram gögn sem sýndu matseðil læknis rússneska liðsins, sem einnig lá smitaður á sama farsóttarhóteli. Læknirinn fékk ferska ávexti og grænmeti, á meðan hún fékk þurrt pasta. Stjórnendur leikanna hafa að sögn brugðist við gagnrýninni og eftir að íþróttakonan tjáði sig opinberlega fékk hún betri mat og keppnishjól inn á herbergið til að halda sér í formi.