Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra gagn­rýnir Ríkis­út­varpið og pistla­höfund RÚV harð­lega í grein sinni sem birtist í Morgun­blaðinu í dag. Þar sakar hún pistla­höfundinn um að lýsa pólitískri af­stöðu „án tengsla við stað­reyndir“.

Sig­rún Davíðs­dóttir skrifaði í vikunni pistil um árangur ríkisins við að upp­fulla til­mæli GRECO, sam­taka ríkja innan Evrópu­ráðsins sem berjast gegn spillingu. Þar greinir hún rétti­lega frá því að for­sætis­ráðið hafi þegar upp­fyllt fern til­mæli GRECO, fern að hluta en ein til­mælin alls ekki. Dóms­mála­ráðu­neytið hafi hins vegar enn ekki upp­fyllt nein þeirra til­mæla sem var beint að því að öllu leyti. Þannig séu átta til­mæli sem falla undir ráðu­neytið, sem hefur að­eins upp­fyllt tvö þeirra að hluta en sex ekki.

„GRECO reikningsdæmið sýnir að það er töluverður munur á frammistöðunni í ráðuneytunum tveimur. Hvort það sýnir meiri áhuga og einbeitni á aðgerðum gegn spillingu innan forsætisráðuneytisins er spurning,“ segir Sigrún í pislinum. „Það má hugsanlega líta svo á að það taki í einhverjum tilfellum lengri tíma að koma til móts við GRECO-tilmælin varðandi löggæsluna. Þar þurfi lagabreytingar eða ný lög. Einhver tilmælanna gætu líka verið efni, sem er ekki samstaða um.“

Segir Sigrúnu gera lítið úr vinnu ráðuneytisins

„Tölu­verður munur var á skýringu Ríkis­út­varpsins í upp­hafi vikunnar og um­mælum eins höfunda fimmtu út­tektar GRECO um niður­stöður eftir­fylgni­skýrslu sam­takanna hvað Ís­land varðar,“ skrifar dóms­mála­ráð­herra í Morgun­blaðinu í dag. „Sig­rún Davíðs­dóttir, pistla­höfundur hjá Ríkis­út­varpinu, kaus í frétta­skýringu sinni, sama dag og skýrslan birtist, að gera lítið úr því sem gert hefur verið á vegum dóms­mála­ráðu­neytisins og lét í veðri vaka að þar væri hvorki á­hugi né vilji á að­gerðum gegn spillingu.“

Áslaug bendir á að tals­maður GRECO hafi hins vegar farið lof­sam­legum orðum um vinnu ráðu­neytisins og lagt á­herslu á að ferlið tæki sinn tíma. Gian­lu­ca Esposito, einn höfunda skýrslunnar, hafi þannig sagt í sam­tali við Frétta­blaðið síðasta þriðju­dag, degi eftir að pistill Sigrúnar birtist:

„Það er ekki búið að inn­leiða til­lögurnar en við tökum til greina að dóms­mála­ráð­herra hóf ný­verið mjög yfir­grips­mikla endur­skipu­lagningu á lög­reglunni og öðrum em­bættum lög­gæslu. Það er einnig í gangi endur­skoðun. Mér skilst að okkar til­lögur sem miða að því að tryggja að engin pólitísk af­skipti séu höfð af lög­gæslu verði inn­leiddar í gegnum þessi tvö ferli. […] Ég er mjög á­nægður með að sjá að þetta sé [í] ferli.“

Allt í eðlilegum farvegi

„Greið­endur út­varps­gjaldsins eiga rétt á því að greint sé rétt frá. Ýmis­legt hefur verið að­hafst í mál­efnum lög­reglunnar undan­farið og frekari breytingar til hins betra eru fram­undan,“ segir ráð­herrann í grein sinni. Hún segir að ráðu­neytinu hafi tekist að lægja átök og deilur innan æðstu stjórnar lög­reglunnar undan­farið. Einnig bendir hún á að nýr ríkis­lög­reglu­stjóri og lög­reglu­stjórar í stærstu em­bættum hafi verið skipaðir að undan­fengnu mati ó­háðra hæfnis­nefnda.

Ás­laug segir loks að frum­varp um breytingar á lög­reglu­lögum sé á loka­metrum þar sem lögð sé á­hersla á að efla sjálf­stætt eftir­lit með störfum lög­reglu. Allar á­herslur í frum­varpinu séu í sam­ræmi við til­mæli GRECO. „Allt er þetta í eðli­legum far­vegi. Þetta veit tals­maður GRECO en frétta­maður „út­varps allra lands­manna“ kaus á hinn bóginn að af­flytja málið og lýsa pólitískri af­stöðu án tengsla við stað­reyndir.“