Faðir barns í grunn­skóla sakaði skóla­stjórann þar um að hafa rang­lega skráð fjar­vist á barnið. Skóla­stjórinn tengist fjöl­skyldu­böndum móður barnsins sem faðirinn deildi við um for­ræði.

Málið kom til kasta Per­sónu­verndar sem segir að ekki hafi verið farið að lögum um Per­sónu­vernd og vinnslu per­sónu­upp­lýsinga er fjar­vistin var skráð.

Ásetningur að baki

Í um­fjöllun Per­sónu­verndar kemur fram að mál föðurins hafi borist í októ­ber í fyrra. Kvartaði hann undan við­veru­skráningu barns síns inn í tölvu­kerfið Mentor. Hafi hann sagt upp­lýsingar sem færðar voru inn um barnið að kvöld­lagi 22. septem­ber 2021 hefðu verið rangar.

„Kvartandi telur að hin ranga við­veru­skráning hafi verið fram­kvæmd af á­setningi, í þeim til­gangi að hafa á­hrif á opin­ber störf sýslu­manns við með­ferð um­gengnis­máls, en skóla­stjórinn tengist móður barnsins fjöl­skyldu­böndum,“ segir í úr­skurðinum. Hann hafi talið að hin ranga við­veru­skráning hafi ein­göngu verið leið­rétt vegna á­bendingar frá honum sjálfum.

Skólinn sagði að um­rædd við­veru­skráning hafi átt sér stað fyrir mis­tök. Sú verk­lags­regla sé í gildi í skólanum að að­eins um­sjónar­kennarar, á­samt skrif­stofu­stjóra, annist við­veru­skráningu nem­enda í Mentor.

„Skóla­stjóri hafi hins vegar að­gang að öllum nem­endum skólans, enda sé skóla­stjóri á­byrgðar­aðili skólans og beri á­byrgð á við­brögðum við ó­full­nægjandi skóla­sókn sam­kvæmt reglum skólans um skóla­sókn,“ segir í um­fjöllun Per­sónu­verndar. „Um­sjónar­kennari barns kvartanda hafi orðið þess var, að morgni 23. septem­ber 2021, að röng við­veru­skráning hafi verið fram­kvæmd vegna barnsins kvöldið áður og hafi skrif­stofu­stjóri leið­rétt skráninguna tafar­laust, eða klukkan 9.20 þann 23. septem­ber 2021.“

Allar aðgerðir skráðar

Þá segir Per­sónu­vernd að í svari skólans segi að að­gangur að upp­lýsingum í tölvu­kerfinu Mentor sé tak­markaður með að­gangs­stýringu, þannig að hver starfs­maður skólans sem hafi að­gang að Mentor þurfi að skrá sig inn í kerfið með lykil­orði og allar að­gerðir séu skráðar.

„ Í sam­ræmi við reglur skólans um skóla­sókn sé á­stundun nem­enda sýni­leg í Mentor og send for­eldrum og for­ráða­mönnum mánaðar­lega og þeim gefinn kostur á að gera at­huga­semdir við við­veru­skráningu. Þannig sé auð­velt að tryggja á­reiðan­leika per­sónu­upp­lýsinga og eftir at­vikum leið­rétta rangar upp­lýsingar,“ segir í úr­skurðinum um skýringar frá skólanum.

Per­sónu­vernd rekur í niður­stöðu sinni að faðirinn byggi einkum á því að hin ranga við­veru­skráning af hálfu skóla­stjóra skólans hafi verið fram­kvæmd af á­setningi til að hafa á­hrif á opin­ber störf sýslu­manns við með­ferð um­gengnis­máls.

„Skólinn hefur hins vegar borið því við að við­veru­skráningin hafi verið fram­kvæmd fyrir mis­tök af hálfu skóla­stjóra. Í ljósi þess skal tekið fram að Per­sónu­vernd hefur ekki for­sendur til að taka af­stöðu til þess hvort skóla­stjóri skólans hafi fram­kvæmt ranga við­veru­skráningu af á­setningi eða fyrir mis­tök. Ekki er því unnt að taka frekari af­stöðu til þeirrar máls­á­stæðu kvartanda,“ segir Per­sónu­vernd.

Síðan segir að skólinn hafi gengist við því að við­veru­skráningin vegna barns mannsins sem kvartaði hafi verið röng. „Þegar af þeirri á­stæðu verður að telja að sú við­veru­skráning sem kvartað er yfir hafi ekki sam­rýmst á­reiðan­leika­kröfu,“ segir Per­sónu­vernd. „Til þess ber þó að líta að við­veru­skráningin var leið­rétt um 12 klukku­stundum síðar, óháð því hver átti frum­kvæði að því að skráningin yrði leið­rétt.“