Hörð átök eru milli stéttar­fé­lagsins Fram­sýnar og Sam­taka fyrir­tækja í sjávar­út­vegi (SFS). For­maður stéttar­fé­lagsins sakar fram­kvæmda­stjóra SFS um hauga­lygi. Stað­hæfingar um að laun fisk­vinnslu­fólks hér á landi séu þau hæstu í heimi eigi ekki við nein rök að styðjast. SFS vísar stað­hæfingum stéttar­fé­lagsins á bug.

Í grein sem Heið­rún Lind Marteins­dóttir, fram­kvæmda­stjóri SFS, skrifaði segir: „Laun í fisk­vinnslu á Ís­landi eru hærri en meðal­laun í landinu og þau hæstu í heiminum.“

Þetta segir Aðal­steinn Á. Baldurs­son, fram­kvæmda­stjóri Fram­sýnar, al­rangt. Hafa póstar gengið þeirra á milli þar sem Aðal­steinn spyr hvort Heið­rún sé ekki að grínast. Heið­rún skrifar á móti: „Það kemur mér satt að segja á ó­vart hversu mjög þér gremst þetta.“

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Aðal­steinn um þá stað­hæfingu að laun séu hæst í heimi hér: „Þetta er hauga­lygi.“ Hann bætir við: „Ég fékk hag­fræðing ASÍ til að reikna út fag­lega sann­leiks­gildi þessara orða og eins og ég vissi þá er þetta al­rangt. Þetta er allt saman lygi.“

Aðal­steinn segir að taka verði með í reikninginn að ef fisk­vinnslu­fólk vinni eins og þrælar, jafn­vel 200-300 tíma á mánuði, skili það sér í hærri tekjum. Það breyti því ekki að launin séu of lág. Mun hærri laun séu í fisk­vinnslu bæði í Noregi og Fær­eyjum.

Ekki standi þó á Fram­sýn að eiga gott sam­tal við for­svars­menn SFS í komandi kjara­við­ræðum um að tryggja fisk­vinnslu­fólki á Ís­landi bestu launa­kjör.

„Það sem styrkir okkur í þeirri trú eru full­yrðingar SFS um að sjávar­út­vegur á Ís­landi sé sá arð­samasti í heimi,“ segir Aðal­steinn. „Látum þá verkin tala. Tryggjum fisk­vinnslu­fólki mann­sæmandi laun.“

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Baldursson, hjólar í framkvæmdastjóra SFS og sakar samtökin um alvarleg ósannindi.
Mynd/Björn Þorláksson

Heið­rún Lind vísar á bug að hún hafi farið með ó­sannindi varðandi launin.

„Þegar við fjöllum um laun í fisk­vinnslu þá erum við að tala um allt starfs­fólk þar, ekki ein­göngu þann tak­markaða hluta sem sinnir verka­manna­störfum í greininni,“ segir hún.

Heið­rún segir að í um­fjöllun SFS hafi sam­tökin á­vallt tekið fram að verið sé að ræða um stað­greiðslu­skyldar launa­greiðslur, eins og þær séu settar fram í tölum Hag­stofu.

„Í því sam­hengi höfum við jafn­framt tekið fram að þar sé ekki tekið til­lit til vinnu­stunda. Það er vita­skuld fleira sem hefur á­hrif á laun, eins og menntunar­stig og fjöldi sér­hæfðra starfa, svo eitt­hvað sé nefnt. Hvað sem allri gagn­rýni líður, þá vona ég að við Aðal­steinn séum sam­mála um að það sé afar já­kvætt að meðal­launa­greiðslur í fisk­vinnslu séu orðnar hærri en meðal­launa­greiðslur heildarinnar hér á landi, en þær voru 80 prósent af meðal­talinu árið 2008,“ segir Heið­rún.

Einnig bendir fram­kvæmda­stjóri SFS á að munurinn hafi farið stöðugt minnkandi og í fyrra hafi launa­greiðslur í fisk­vinnslu farið yfir lands­meðal­talið. „Það er sannan­lega frétt­næmt.“

Föst mánaðar­laun hjá fisk­vinnslu­fólki á Ís­landi eru sam­kvæmt upp­lýsingum frá Fram­sýn á bilinu 370.000- 387.000 krónur. Vitnar fé­lagið þar í gildandi launa­töflur frá aðilum vinnu­markaðarins.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdarstjóri SFS, staðhæfir að laun í fiskvinnslu hér séu þau hæstu í heimi.
Mynd/Stefán Karlsson