Útgerðarfyrirtækið Samherji mun í dag birta þátt þar sem Ríkisútvarpið og starfsmaður þess sem er fréttamaður eru sökuð um að hafa falsað gögn við gerð Kastljóssþáttar árið 2012.

Í þættinum, sem birtur verður á síðu Samherja á myndbandaveitunni YouTube, segir að skýrsla Verðlagsstofu skiptaverðs frá árinu 2010, sem fréttamaðurinn, Helgi Seljan, vitnaði til í þættinum árið 2012, hafi aldrei verið samin af stofnuninni. Þátturinn var sýndur 27. mars 2012, sama dag og fulltrúar Gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og Embættis sérstaks saksóknara gerðu húsleit í höfuðstöðvum útgerðarfyrirtækisins Samherja í Reykjavík og á Akureyri.

Þá er vitnað í leynilega upptöku af samtali Helga við Jón Óttar Ólafsson afbrotafræðing, sem starfar nú fyrir Samherja, frá árinu 2014. Þar segir Helgi að hann hafi ekki fengið neinn hjá Verðlagsstofu skiptaverðs til að staðfesta að skýrslan hafi verið unnin þar. Hefur Verðlagsstofa staðfest við Fréttablaðið að skýrslan hafi aldrei verið unnin. Var skýrslan ekki meðal gagna í máli Seðlabankans gegn Samherja, en þeim þætti málsins lauk árið 2018 þegar Hæstiréttur felldi niður sekt Seðlabankans á Samherja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir Seðlabankamálinu ekki lokið og að upplýsingarnar um skýrsluna hafi komið í ljós við undirbúning málaferla. Þættirnir séu liður í að svara ásökunum sem komið hafa fram. Byrjað sé á Seðlabankamálinu.

„Það hefur legið fyrir um nokkra hríð að við ætluðum að svara þeim ásökunum sem voru bornar á félagið og starfsfólk þess. Í apríl á þessu ári staðfesti Verðlagsstofa skiptaverðs með bréfi til Samherja að það skjal, sem var aðalheimild Kastljóss við gerð þáttar um Seðlabankamálið hinn 27. mars 2012, hefði aldrei verið unnið hjá stofnuninni. Þessi svör Verðlagsstofu staðfesta að Helgi Seljan sagði þjóðinni ósatt í umræddum þætti því hann vísaði ítrekað til „skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs“ í þættinum,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Hefur Samherji látið gera þætti, sem birtir verða á YouTube, þar sem ýmsum ásökunum á hendur fyrirtækinu verður svarað. Fyrsti þátturinn verður sýndur í dag.

Fulltrúar Seðlabankans og sérstaks saksóknara gerðu húsleit hjá Samherja í mars 2012. Fréttablaðið/Pjetur

„Við vorum búnir að ákveða að svara fyrir okkur og við töldum rétt að gera það í réttri tímalínu og byrja á vinnubrögðum Ríkisútvarpsins í Seðlabankamálinu. Við skulum hafa hugfast að almenningur í landinu treystir Ríkisútvarpinu,“ segir Þorsteinn Már. „Almenningur treystir því að Ríkisútvarpið segi satt og rétt frá. Það er nauðsynlegt að almenningur viti hvernig trúnaðarmaður fólksins, fréttamaður á Ríkisútvarpinu, fer með heimildir, breytir þeim og hagræðir og lagar fréttaflutning að eigin geðþótta, þvert á lög.“

Í þætti Samherja er vitnað í leynilega upptöku sem Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður, sem starfaði einnig fyrir Samherja í Namibíu, tók upp árið 2014. Þar heyrist Helgi segja að hann hafi aldrei fengið skýrsluna staðfesta. Þar heyrist hann einnig tala um að hafa „átt við skýrsluna“.

Þá er einnig rætt við Garðar Gíslason hæstaréttarlögmann um að ef það reynist rétt að Helgi hafi átt við gögn og farið með þau á fund stjórnvalds sem geti beitt refsingum til að saka aðila um brot, þá sé Helgi sjálfur að fremja refsiverðan verknað.

Er þá einnig boðuð frekari umfjöllun um vinnubrögð Ríkisútvarpsins og Helga af hálfu Samherja. Mun sú umfjöllun snúa að þætti Kveiks og umfjöllun Stundarinnar frá því í nóvember í fyrra þar sem birt voru gögn og vitnisburður sem gefa til kynna að dótturfyrirtæki Samherja hafi greitt mútur í Namibíu með vitneskju stjórnenda. Er það mál nú til rannsóknar hjá héraðssaksóknara sem hefur ekki viljað tjá sig um rannsóknina.

Þorsteinn Már segir Seðlabankamálinu ekki lokið. Hefjast málaferli í september þar sem Samherji krefst þess að fá endurgreiddan kostnað vegna málarekstursins við Seðlabankann.

„Eftir að þetta Namibíumál kom upp fórum við að skoða vinnubrögð Ríkisútvarpsins lengra aftur í tímann og fengum þá nýjar upplýsingar sem við töldum að ættu brýnt erindi við almenning. Við létum framleiða þessa þætti til að svara þessum ásökunum, í Seðlabankamálinu og Namibíumálinu.“

Helgi Seljan vildi ekki ræða málið þegar eftir því var leitað.

Þáttinn má sjá í heild sinni hér fyrir neðan: